Engar umræður um orkupakkann
Andróðurinn gegn flokksforystunni og þingflokknum vegna orkupakkans hefur gengið mun lengra en góðu hófi gegnir og þeir sem hæst láta á opinberum vettvangi vegna hans eru einfaldlega marklausir.
Á netinu (www.xd.is) má sjá ræður forystumanna Sjálfstæðisflokksins á formanna- og flokksráðsfundi sem haldinn var laugardaginn 14. september. Bjarni Benediktsson formaður, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, fráfarandi ritari, ræddu öll stöðu flokks og stjórnmála á líðandi stundu á opinn hátt. Fyrir áhugamenn um þriðja orkupakkann gáfu þau upp boltann til umræðna á fundinum. Enginn hafði hins vegar áhuga á að ræða málið.
Annaðhvort er allt orðum aukið sem sagt hefur verið um djúptæka og almenna andstöðu innan flokksins við stefnu og ákvarðanir þingflokks sjálfstæðismanna í málinu eða þeir sem hæst hafa haft um hætturnar sem að flokknum steðja og enn eru innan flokksins kjósa að þegja þunnu hljóði á höfuðvettvangi hans milli landsfunda.
Frá flokksráðsfundi sjálfstæðismanna á Hótel Nordica laugardaginn 14. september.
Andróðurinn gegn flokksforystunni og þingflokknum í þessu máli hefur gengið mun lengra en góðu hófi gegnir og þeir sem hæst láta á opinberum vettvangi vegna þess eru einfaldlega marklausir. Æskilegt væri að gerð yrði stjórnmálafræðileg athugun á rökum og fullyrðingum andstæðinga þessa máls og hræðslusmiða um örlög Sjálfstæðisflokksins í tilefni af því. Margt mætti læra af slíkri greiningu.
Í stjórnmálaályktun fundarins er fjallað um EES-samninginn og orkumál með þessum orðum:
„Flokksráðsfundur undirstrikar mikilvægi EES-samningsins en telur nauðsynlegt að íslensk stjórnsýsla og löggjafinn bæti vinnubrögð og nýti möguleika til að hafa áhrif á sameiginlegt regluverk á fyrstu stigum. Þegar hafa mikilvæg skref í þessa átt verið stigin undir forystu Sjálfstæðisflokksins.
Flokksráðsfundur áréttar að hagsmunir Íslands séu best tryggðir með því að standa utan Evrópusambandsins. Aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu er forsenda þess að öryggi landsins sé tryggt.Varnarsamstarf við Bandaríkin skal ávallt að vera í samræmi við þarfir Íslands.
Flokksráðsfundur Sjálfstæðisflokksins leggur áherslu á að forræði yfir orkuauðlindum landsins verði alltaf og undantekningalaust í höndum Íslendinga. Orkuauðlindir í opinberri eigu skulu vera það áfram. Mikilvægt er að jafnræði ríki milli landsmanna þegar kemur að dreifikostnaði raforku. Slík jafnræðissjónarmið hafa lengi verið viðurkennd varðandi aðra innviði s.s. fjarskipti og vegi.
Tryggja þarf nægt framboð af raforku fyrir heimili og fyrirtæki og nýta kosti frjálsrar samkeppni. Brýnt er að koma í veg fyrir að almennir orkunotendur séu berskjaldaðir fyrir orkuskorti eða „orkufátækt“. Mikilvægasta fyrirtæki landsins í framleiðslu rafmagns er í eigu ríkisins og þar með almennings. Gera á skýra arðsemiskröfu til Landsvirkjunar. Flokksráðsfundur vill að landsmönnum sé tryggður ábati af hagnaði orkufyrirtækja í eigu ríkisins með beinum hætti.“
Allt er þetta skýrt og afdráttarlaust og sannar að þriðji orkupakkinnb hefur ekki á neinn hátt hróflað við grunnstefnu Sjálfstæðisflokksins í utanríkis- og orkumálum.