13.10.2025 14:13

Endurkoma gíslanna - Trump fagnað

Líkti þingforsetinn Trump við Kýros mikla, fyrsta konung Persaveldis og stofnanda þess. Sagði Ohana Ísraela myndu minnast Trumps um aldir, hann væri colossus- mikilmenni -  heimurinn þyrfti á fleiri Trumpum að halda!

Hamas hefur nú enga ísraelska gísla á lífi í haldi lengur eftir 738 daga átök. Öllum síðustu 20 gíslunum var sleppt að morgni mánudagsins 13. október. Að auki voru lík 28 gísla afhent Rauða krossinum síðdegis. Ísraelar létu 250 palestínska hryðjuverkamenn og yfir 1700 palestínska fanga lausa í skiptum fyrir ísraelsku gíslana.

Allt frá því að liðsmenn Hamas réðust inn í Ísrael 7. október 2023 og drápu 1200 manns og tóku 251 gísl hefur verið ljóst að Ísraelar myndu beita hervaldi til að bjarga gíslunum. Árás Hamas og gíslataka hefur leitt til gífurlegs mannfalls og eyðileggingar á mannvirkjum á Gaza. Afleiðingarnar hafa orðið miklu dramatískari en nokkur gat ímyndað sér.

Á þeim fjórðungi sem liðinn er af þessari öld höfum við kynnst harkalegum viðbrögðum við glæpaverkum hryðjuverkasamtaka (al-Kaída og ISIS) og markvissum aðgerðum til að uppræta samtökin. Ekkert jafnast hins vegar á við stríðið gegn Hamas. Nú er spurt hvort tekist hafi að uppræta þau samtök eða lama á þann hátt að þau láti ekki að sér kveða að nýju. Svarið er óljóst og ræðst af því hvað gerist eftir fyrsta skrefið til friðar – afhendingu gíslanna.

Að morgni mánudagsins kom Donald Trump Bandaríkjaforseti til Ísraels til að taka þátt í fögnuði þar vegna móttöku gíslanna og til að staðfesta að slagkraftur hans og Bandaríkjamanna gagnvart öllum áhrifaaðilum fyrir botni Miðjarðarhafs réð úrslitum um að þessum áfanga hafi verið náð.

Þúsundir Ísraela komu saman á Gíslatorginu í Tel Aviv og fylgdust með afhendingu gíslanna á stórum skjám. Þar mátti heyra hrópað: Þakka þér, Trump!

Donald J. Trump var vel fagnað í Knesset, þingi Ísraels, og sagði þingforsetinn, Amir Ohana, að Trump væri besti vinur Ísraela meðal bandarískra forseta. Hann hefði á sínum tíma viðurkennt Jerúsalem sem höfuðstað Ísraels með flutningi bandaríska sendiráðsins þangað. Þá þakkaði hann forsetanum fyrir að hafa gefið fyrirmæli um árásir á kjarnorkustöðvar Írans. Loks færði hann Trump þakkir fyrir endurkomu gíslanna. Líkti þingforsetinn Trump við Kýros mikla, fyrsta konung Persaveldis og stofnanda þess. Árið 540 f. Kr. leyfði Kýros herleiddum Gyðingum að fara til heimalands síns frá Babylóníu og lét þá fá musterisker Nebúkadnesar. Sagði Ohana Ísraela myndu minnast Trumps um aldir, hann væri colossus - mikilmenni - heimurinn þyrfti á fleiri Trumpum að halda! Tilkynnti þingforsetinn að hann ásamt fleiri þingforsetum víða um heim myndi tilnefna Trump til friðarverðlauna Nóbels á næsta ári.

Screenshot-2025-10-13-at-14.11.38Donald Trump flytur ræðu í Knesset 13. október 2025. Til hægri Amir Ohana þingforseti.

Benjamin Netanyahu forsætisráðherra flutti lof um Trump. Hann hefði lagt grunn að endurkomu gíslanna og varanlegum friði. Frá upphafi hefði legið fyrir að Ísraelar myndu ekki leggja niður vopn fyrr en allir gíslar Hamas hefðu fengið frelsi. Ísraelar hefðu notið stuðnings alþjóðasamfélagsins á fyrstu mánuðum átakanna og Hamas hefði skilað hluta gísla. Síðan hefði alþjóðlegur stuðningur við Ísraela minnkað. Þáttaskil hefðu orðið með kjöri Trumps sem forseta í nóvember 2024. Þá hefði besti og traustasti vinur Ísraela orðið forseti. Á sama tíma og ríkisstjórnir um allan heim hefðu látið undan þrýstingi óvina Ísraels hefði Trump tekið aðra stefnu og stuðlað að sigri Ísraels og þar með friði.

„Þetta er ekki aðeins endir á stríði heldur einnig hryðjuverka og dauða og upphaf nýs tíma trúar, vonar og Guðs. Upphaf friðsemdar fyrir Ísrael. Þetta er söguleg dögun fyrir ný Mið-Austurlönd,“ sagði Trump í upphafi langrar ræðu sinnar. Hann lofaði Gazabúum stuðningi og sagði að yrði staðið rétt að málum væri þetta upphaf eilífs friðar.

Allt gefur þetta vonir um að í raun sé um þáttaskil fyrir botni Miðjarðarhafs að ræða. Margur vandi er óleystur. Palestínumenn hafa sameinast vegna stríðsins en nú þurfa þeir að líta á eigin mál með nýjum augum og efna til kosninga. Sama má segja um Ísraela. Netanyahu er undir rannsókn vegna ákæru um spillingu. Lýkur stjórnmálaferli hans á þennan hátt?

Hvað með gyðingahatur í Evrópu? Fækkar mótmælum gegn Ísrael? Verður Ísrael rekið úr söngvakeppni Evrópu? Eða verður viðurkennt að slíkt spark grafi frekar undan friði en styrki hann? Er tveggja ríkja lausnin dauð? Svörin við þessum spurningum eru í höndum annarra en Ísraela.