14.5.2017 21:06

Emmanuel Macron settur í embætti

Emmanuel Macron flutti eftirminnilega ræðu í hefðbundnum frönskum forsetastíl þar sem hann höfðaði til sögulegs hlutverks Frakka í mannkynssögunni og áréttaði mikilvægi þess að þeir sýndu áfram hugrekki sitt í þágu frelsis og sköpunar. 

Emmanuel Macron, 39 ára, tók í morgun við embætti forseta Frakklands. Innsetningin fór fram í Elysée-höllinni og hófst eftir að François Hollande, fráfarandi forseti, hafði verið hátíðlega kvaddur í hlaði hallarinnar. Hollande ók sem leið lá í höfuðstöðvar Sósíalistaflokksins þar sem hann flutti ræðu sjálfum sér til heiðurs.

Laurent Fabius, forseti franska stjórnlagaráðsins og fyrrverandi utanríkisráðherra í stjórn sósíalista, setti Macron í embættið með því að lýsa kosningarnar 7. maí löglegar og flytja áhrifamikla ræðu blaðlaust. Strengjasveit hersins lék við athöfnina: 

Cyprès et lauriers eftir Camille Saint-Saëns; L'Apothéose  úr Grande symphonie funèbre et triomphale eftir Hector Berlioz; forleikinn úr Orphée aux enfers eftir Jacques Offenbach; Ungverskan dans eftirJohannes Brahms og svonefnda kampavínsaríu úr Don Juan eftir Mozart.

Emmanuel Macron flutti eftirminnilega ræðu í hefðbundnum frönskum forsetastíl þar sem hann höfðaði til sögulegs hlutverks Frakka í mannkynssögunni og áréttaði mikilvægi þess að þeir sýndu áfram hugrekki sitt í þágu frelsis og sköpunar. 

Hann fór hann út í garð forsetahallarinnar, vottaði hernum virðingu sína og herinn sór honum hollustu sem síðan var enn staðfest þegar hann fór að Sigurboganum og heiðraði minningu óþekkta hermannsins. Honum var ekið í opnum vagni hersins. Á milli athafnarinnar í forsetahöllinni og ökuferðarinnar upp Champs Elysée að Sigurboganum varð skýfall í París. Forsetinn var þó ekki í frakka enda tíðkast það ekki þegar Frakklandsforseti heiðrar herinn með návist sinni. Fyrir fimm árum var François Hollande ekið frakkalausum í hellidembu þessa leið. Macron slapp við dembuna en  nokkrir dropar féllu.

Á milli forms þessarar hátíðlegu athafnar og innsetningar Bandaríkjaforseta er himinn og haf. Munurinn endurspeglar ólíkar hefðir þótt hugsjónir og gildismat falli saman. Donald Trump Bandaríkjaforseti og Emmanuel Macron lögðu báðir áherslu á mikilleika þjóða sinna og hlutverk þeirra til að gera heiminn betri.