Elítismi einangrar RÚV
RÚV missir tengslin við almenning með vaxandi elítisma og skautun. Nú er RÚV þátttakandi í „alþjóðlegri and-zíonískri sniðgönguherferð“.
Gyðingahatrið sem birtist í hryðjuverkum á ljósahátíð gyðinga víða um lönd um helgina beinir athygli að ákvörðun ríkjanna fimm um að sniðganga Júróvisjón vegna óvildar í garð Ísraela sem hafa verið þátttakendur í keppninni frá 1973.
Yfirstjórn ríkisútvarpsins (RÚV) tilkynnti sniðgöngu sína miðvikudaginn 10. desember og nýtur hún stuðnings Loga Einarssonar menningarráðherra og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur utanríkisráðherra. Það fer því ekkert á milli mála um afstöðu íslenskra stjórnvalda.
Alls hafa 35 ríki staðfest þátttöku sína Í Júróvisjón 2026 í Vínarborg.
Þar til keppnin fer fram í Austurríki í maí 2026 geta fleiri ríkisútvörp ákveðið að falla frá þátttöku sinni. Í dönskum fjölmiðlum velta blaðamenn þessu máli fyrir sér hvort komi til álita að danska ríkisútvarpið, DR, sniðgangi keppnina; þeirra á meðal er Søren K. Villemoes sem segir í Weekendavisen 14. desember að af ýmsum ástæðum sé ólíklegt að það gerist. Hann segir:
„DR á sér enga hefð fyrir slíkum pólitískum aktívisma í tengslum við Júróvisjón. Tímasetningin væri líka alveg fáránleg. Í ár hefur DR sætt harðri gagnrýni í kjölfar heimildarmyndarinnar Grønlands hvide guld, sem leiddi til ásakana um vinstri slagsíðu í dagskrárgerð þar. Sniðganga væri jólagjöf til gagnrýnenda fjölmiðilsins úr röðum borgaralegu flokkanna.
Með öðrum orðum: Það er erfitt að ímynda sér heimskulegri sjálfsmorðsstefnu en að nýr útvarpsstjóri DR, Bjarne Corydon, tæki ákvörðun um að láta fjölmiðilinn taka þátt í alþjóðlegri and-zíonískri sniðgönguherferð. Það er erfitt að ímynda sér að Corydon myndi taka svo heimskulega ákvörðun þar sem ekkert ávinnst en mjög mikið tapast. Það myndi einnig stangast á við yfirlýsta stefnu hans um áherslu á málefnalega afstöðu og hlutlægni frekar en aktívisma og skautun.“
Þá hefur Daniel Karpantschof vakið máls á því í Politken hverjir það séu sem ráði þegar teknar eru stefnumarkandi ákvarðanir í menningarmálum á borð við sniðgöngu í Júróvisjón. Hann veltir fyrir sér hvort einhver elíta eigi að ráða eða viðhorfið sem birtist í afstöðu almennings.
Hann minnir á afstöðu til Ísraela sem birst hafi í símakosningum almennings í Júróvisjón og segir að þegar Holland, Írland, Ísland, Slóvenía og Spánn ákveði að sniðganga Júróvisjón 2026 sé það ekki í samræmi við afstöðu þjóðanna í áranna rás. Þvert á móti. Ef Júrovisjón er mælikvarði á almenningsálit séu gögnin nokkuð skýr: áhorfendur í þessum löndum hafi sýnt Ísrael mjög mikinn stuðning undanfarin ár. Sniðgangan endurspegli því ekki vilja þjóðanna eins og hann birtist í atkvæðagreiðslum í keppninni heldur stofnananna sem vilji ekki vera með í keppninni.
Árin 2018, 2024 og 2025 hafi áhorfendur í Hollandi, Írlandi, Íslandi, Slóveníu og Spáni haft Ísrael alveg á toppnum í símakosningunni, með yfirgnæfandi hætti. Í nokkrum tilvikum hafi áhorfendur gefið 10 og 12 stig, hæstu mögulegu einkunn. Þetta hafi verið skýr stuðningur almennings, hvort sem fólki líkaði lagið eða stjórnmálastefna landsins.
RÚV missir tengslin við almenning með vaxandi elítisma og skautun. Nú er RÚV þátttakandi í „alþjóðlegri and-zíonískri sniðgönguherferð“.