30.12.2017 12:33

Ekki tími kjarastríðs

Því verður ekki trúað ætlunin sé nú að kollsigla þjóðarbúinu með kjarastríði í stað þess að standa vörð um það sem áunnist hefur

Í áramótagrein í sunnudagsblaði Morgunblaðsins segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins:

„Þrátt fyrir umrót á pólitíska sviðinu hefur árið verið Íslendingum gott og sennilega hefur aldrei verið betra að vera uppi en á okkar tímum. Fyrir fáeinum dögum mátti lesa á forsíðu Morgunblaðsins að yfir stæði fordæmalaust góðæri og laun hefðu aldrei verið hærri. Og þótt líklegt megi teljast að við séum á toppi hagsveiflunnar, er útlitið til næstu ára samt sem áður bjart.“

Í sama eintaki af Morgunblaðinu birtist auglýsing frá Samtökum atvinnulífsins (bls.15) undir fyrirsögninni: Tölum um staðreyndir. Í meginmáli auglýsingarinnar stendur:

·      Á Íslandi eru að meðaltali greidd hæstu heildarlaun í heimi á eftir Sviss.Laun eru hærri á Íslandi en í Lúxemborg, Danmörku og Noregi.

·      Lágmarkslaun á Íslandi eru meðal þeirra hæstu í heimi.

·      Dagvinnutími á Íslandi er hvergi styttri í Evrópu að Frakklandi undanskildu.

·      Og tekjujöfnuður er hvergi meiri.

Á forsíðu laugardagsblaðs Morgunblaðsins er fyrirsögnin þessi: ASÍ lætur skína í verkfallsvopnið

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir: „Ef það er enginn vilji hjá stjórnvöldum til að breyta stefnumörkun höfum við auðvitað úrræði. Það er hundrað ára hefð fyrir því.“

Í fréttinni kemur fram að ASÍ hafi viljað ráða meira um niðurstöðu fjárlaga, það er varðandi atvinnuleysisbætur, ábyrgðarsjóð launa, fæðingarorlof og stefnu í menntamálum. Þá er einnig vitnað í Gyðu Hrönn Einarsdóttur, varaformann BHM, sem vill að litið sé til launaþróunar frá 2006 í stað 2013, kjararáð hafi miðað við 2006. Þá vilji heilbrigðisstarfsmenn sömu hækkun launa og læknar.

Því verður ekki trúað ætlunin sé nú að kollsigla þjóðarbúinu með kjarastríði í stað þess að standa vörð um það sem áunnist hefur. Rök forseta ASÍ fyrir að láta skína í verkfallsvopnið er „hundrað ára hefð“. Í auglýsingu Samtaka atvinnulífsins segir hins vegar: „Þann 1. desember 1918 varð Ísland frjálst og fullvalda ríki. Á hundrað árum hefur öflugt íslenskt atvinnulíf lagt grunn að góðum lífskjörum og mikilli velsæld.“

Þessum orðum verður ekki andmælt. Við höfum dýrkeypta reynslu af að kappsamir banka- og fjármálamenn höfðu öll hættumerki að engu og kollsigldu fjármálakerfinu fyrir 10 árum. Engum átti að vera betur ljóst en þeim að hafa yrði fast land undir fótum og taka mið af staðreyndum.

Kjör landsmanna hafa líklega aldrei verið betri en núna. Að brýna vopn til að takast á um þau er eins og hvert annað öfugmæli.