25.7.2025 10:53

Ekki styggja Brusselmenn

Krafa stækkunardeildarinnar um virðingu fyrir lýðræðislegum vinnubrögðum og viðhorfum ráðamanna í umsóknarríkjunum er þung og ströng.

Að þingmenn ríkisstjórnarinnar segi það „skemmdarverkastarfsemi“ að talað sé gegn frumvörpum þeirra á Alþingi bendir það til vondrar samvisku. Þeir fögnuðu þó opinberlega að þeir hefðu vald til að þagga niður í andstæðingnum sínum.

Að samviska nagi birtist einnig í setningu eins og þessari hérna:

„Það varð fljótt ljóst að drifkraftur stjórnarandstöðunnar til skemmdarverka var annar en hagsmunir almennings. Hvatningin til málþófs kom nánast öll úr einni átt, frá samtökum útgerðanna.“

Þannig skrifar Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, þingmaður Flokks fólksins, í Morgunblaðið í dag (25. júlí). Hvers vegna er heiftin svona mikil? Að saka aðra um skemmdarverk þegar þeir nýta rétt sinn lögum samkvæmt sæmir engum, síst af öllum þingmanni.

Þá birtist þarna það viðhorf að útgerð fiskiskipa og fiskvinnsla falli ekki að hagsmunum almennings fyrir utan tilraunina til að stimpla andstæðinga á alþingi sem strengjabrúður óvina almennings.

Það er þetta hugarfar sem þingmaður Flokks fólksins telur best að kynna við uppgjör á störfum þingsins á fyrstu mánuðum stjórnarsamstarfsins. Hvers vegna þessi heiftarlega reiði? Hana má líklega rekja til allra málanna sem stjórnarflokkarnir klúðruðu á þinginu.

Þrátt fyrir planið fellur meirihluti mála stjórnarinnar dauður við þinglok – sérstaklega mál sem eru Flokki fólksins mikilvæg.

Eftir komu Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, hingað til lands 17. júlí er ljóst að Brusselmenn hafa tekið forystu um hvernig samskiptum Íslands og ESB skuli háttað. ESB telur sig hafa rétt til íhlutunar í innanríkismál umsóknarríkja og segir þeim hvernig stjórnvöld þeirra skuli haga sér á umsóknarferlinu. Voðinn sé vís sé ekki farið að ráðunum frá Brussel.

YFw1HK4k_400x400Guillaume Mercier, talsmaður stækkunarstjóra ESB (mynd: ESB).

Dæmi um slík afskipti frá Brussel má nú sjá í fréttum um að Guillaume Mercier, talsmaður stækkunarstjóra ESB, og stækkunarstjórinn sjálfur, Marta Kos, lýsa andstöðu við ný lög í Úkraínu sem takmarka sjálfstæðar valdheimildir eftirlitsstofnana. Svona geri ESB-umsóknarríki ekki.

Guillaume Mercier er einmitt sá meðal Brusselmanna sem tilkynnti 15. janúar 2025 að ESB liti á Ísland sem umsóknarríki hvað sem liði 10 ára gömlum yfirlýsingum ríkisstjórnar Íslands um að landið væri ekki meðal umsóknarríkja. Mercier gerði þetta á sama tíma og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir var í fyrstu ráðherraferð sinni til Brussel. Hann vissi að hún myndi ekki gagnrýna þessa afstöðu ESB.

Krafa stækkunardeildarinnar um virðingu fyrir lýðræðislegum vinnubrögðum og viðhorfum ráðamanna í umsóknarríkjunum er þung og ströng.

Talsmáti eins og Kolbrún Áslaugar Baldusdóttir temur sér um stjórnarandstöðuna sem „skemmdarverkamenn“ fær rauð ljós til að blikka í Brussel. Spurning er hvað Brusselmenn segja um beitingu þingforseta á 2. mgr. 71. gr. þingskapalaga til að þagga niður í stjórnarandstöðunni. Er hún sæmandi umsóknarríki?

Flokkur fólksins ætlar kannski að stöðva umsóknarferlið með ljótu orðbragði?