10.1.2026 11:25

Ekki náðist í Pétur

Þá kom í ljós að kosningastjórn Péturs hafði gleymt Heimildinni. Kannski vegna þess að þar hefur ekkert verið gert með skattamál Kristrúnar.

Sem gamall knattspyrnumaður og krati bauð Pétur Marteinsson sig vafalaust fram í oddvitasæti Samfylkingarinnar í Reykjavík í trausti þess að þar fylgdu menn leikreglum. Þær tækju til dæmis mið af því að Kristrún Frostadóttir flaug í formennsku í flokknum þrátt fyrir ásakanir um óhreint mjöl í skattamálum.

Kosningastjórn Péturs sá til þess að hann hitti Kristrúnu á Kaffi Vest sem var opinber staðfesting á stuðningi hennar við framboð hans.

Heiða Björg Hilmisdóttir fékk þá útreið í áramótaskaupi sjónvarpsins að enginn vissi hver væri borgarstjóri. Á nýársdag lýsti Pétur yfir framboði sínu gegn Heiðu Björg í Samfylkingunni.

Pétur sagði næstum í fréttaviðtali að hann ætlaði í prófkjör í Sjálfstæðisflokknum. Því þótti kosningastjórn hans þörf á að hann stimplaði sig rækilega til vinstri. Öfgavinstrimaðurinn Zohran Mamdani tók við embætti borgarstjóra New York-borgar 1. janúar 2026. Mamdani segist vera sósíaldemókrati. Í tilefni af embættistöku hans sagði Pétur á mbl.is 2. janúar:

„Mér finnst algjörlega meiriháttar að sjá hann vinna þarna í New York en þetta eru svo ólíkar borgir að maður veit ekki alveg hvað er hægt að taka þaðan, en klárlega er þetta smá innblástur.“

1622610Morgunblaðið setti þessa mynd saman til að sýna feril Péturs Marteinssonar frá stuðningi við Sjálfstæðisflokkinn til hrifningar á Zohran Mamdani, borgarstjóra New York.

Línan var lögð. Frambjóðandinn höfðaði bæði til hægri og vinstri innan Samfylkingarinnar. Nú skyldi hann krýndur eins og Kristrún um árið í Iðnó þegar hún taldi sig fá alræðisvald í flokknum.

Þá kom í ljós að kosningastjórn Péturs hafði gleymt Heimildinni. Kannski vegna þess að þar hefur ekkert verið gert með skattamál Kristrúnar enda fór Þórður Snær Júlíusson, gamli ritstjóri hennar, á framboðslista með Kristrúnu og Degi B.

Föstudaginn 9. janúar hófst fréttagrein eftir Val Grettisson í Heimildinni á þessum orðum:

„Pétur Marteinsson sat í stjórn félags sem fór með eignarhlut í lóðauppbyggingu í Skerjafirði þó að hann hafi þverneitað í viðtali við Heimildina í byrjun árs að hann hefði hagsmuni af lóðauppbyggingunni.“ Þá segir að Pétur hafi þrýst á borgarstjóra í þágu félagsins en sagt sig úr stjórn þess þegar blaðamaður hafi spurst fyrir um málið.

Stjórnarhættir Reykjavíkurborgar sæta mikilli gagnrýni vegna seinagangs. Erindum er sinnt seint og illa, meira að segja þegar umboðsmaður alþingis leitar svara.

Eftir að Heimildin birti fréttina um Pétur og Skerjafjörðinn lifnaði hins vegar yfir starfsliði ráðhússins eins og sagt er frá í Morgunblaðinu 10. janúar:

„Lögfræðingar og aðrir starfsmenn skrifstofu borgarstjóra kanna nú hvort Pétur Marteinsson, sem sækist eftir að leiða lista Samfylkingarinnar í Reykjavík, hafi í raun framselt hlut sinn í uppbyggingu á lóðum í Skerjafirði.

Þetta segir Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri í samtali við Morgunblaðið en hún sækist, eins og Pétur, eftir því að leiða lista flokksins í vor.“

Prófkjörsátökin í Samfylkingunni standa til 24. janúar. „Ekki náðist í Pétur við vinnslu fréttarinnar,“ segir í Morgunblaðinu 10. janúar.