22.6.2020 10:14

Ekki-fréttir af kjaradeilum

Nú er lokið ekki-fréttalotu vegna kjaradeilu hjúkrunarfræðinga. Síðast í gærkvöldi stóð fréttakona ríkissjónvarpsins í beinni útsendingu fyrir framan Karphúsið og sagði ekki-frétt um deiluna.

Ólafur Hauksson, almannatengill og fyrrverandi blaðamaður, sagði nýlega í færslu á Facebook-síðu sem höfðar sérstaklega til fjölmiðlamanna:

„Fréttir af kjaraviðræðum eru svolítið sér á báti. Það er eiginlega aldrei neitt að frétta annað en að aðilar séu að tala saman. Viðræðurnar eru sagðar þokast, staðan er alvarleg, hingað og ekki lengra, þeim miðar í rétta átt, mikið ber á milli, fundir fram á nótt, Karphúsið lokað, það stefnir í verkfall... og svo kemur fréttabann á ekkifréttirnar.

Nánast aldrei fást upplýsingar um hvað fólkið er raunverulega að ræða um á þessum maraþonfundum - krónur og aura, kaupauka, bónusa, fríðindi, álag, frí, uppsagnarákvæði eða vaktabreytingar. Spurningum er helst svarað á þá leið að þungt sé í fólki. Þetta er svolítið eins og ef Gummi Ben lýsti fótboltaleik eitthvað í þessum dúr: - nú hleypur leikmaður upp völlinn og svo hleypur leikmaður úr hinu liðinu niður völlinn. Talið er að þeir séu að sparka í bolta að öðru hvoru markinu en engar upplýsingar er að fá um það. -

Ég er aldrei neitt nær eftir ábúðarfull viðtöl í beinni við kjarasamningafólk. Það talar í áratuga gömlum frösum. Helst þegar fréttabann skellur á má telja öruggt að eitthvað verði brátt að frétta.

Ekki bætir úr skák að þegar einhver samningsaðilinn (yfirleitt vinnuveitandi) talar opinberlega um kröfugerð mótaðilans, þá verður allt vitlaust og viðkomandi sakaður um helber ósannindi og skotgrafahernað og ákall um lagasetningu.

En svo þegar allt er yfirstaðið og samningar opinberaðir, þá erum við litlu nær, vegna þess hvað þeir eru flóknir.“

Í athugasemd við færslu Ólafs sagði fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason og hitti naglann á höfuðið:

„Ég hef vanist á það af langri reynslu að loka eyrunum þegar koma fréttir af kjarasamningum. Yfirleitt semst svo alltaf að lokum - þannig að það er í rauninni ekkert að frétta þótt fjallað sé um þetta kvöld eftir kvöld. En þetta er fréttaefni sem er auðvelt að sækja, bara reka míkrófón upp í „samningsaðila“.“

563882Vegna skorts á efni í fréttir sem samt eru birtar er þetta hús, Karphúsið, oft myndefni.

Nú er lokið ekki-fréttalotu vegna kjaradeilu hjúkrunarfræðinga. Síðast í gærkvöldi (21. júní) stóð fréttakona ríkissjónvarpsins í beinni útsendingu fyrir framan Karphúsið og sagði ekki-frétt um deiluna.

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari afstýrði verkfalli í nótt með því að vísa hluta af ágreiningi um launaliðinn í gerðardóm. Gengur það eftir ef hjúkrunarfræðingar samþykkja tillögu hans nú í vikunni. Gerist það ekki verður enn þyngra undir fæti við samningaborðið.

Fyrir nokkrum vikum höfnuðu hjúkrunarfræðingar samningi í atkvæðagreiðslu og lýstu þar með vantrausti á eigin forystu. Hafni þeir miðlunartillögu ríkissáttasemjara lýsa hjúkrunarfræðingar einnig vantrausti á hann.

Einkennilegt er að í fréttaleysinu af því sem gerist við samningaborðið skuli enginn fjölmiðill brjóta félagslegan þátt óleystra kjaradeilna til mergjar. Hvað er það í viðkomandi félögum sem veldur ótta forystumanna þeirra við að semja? Ef þeir semja, hvers vegna verða þeir undir í atkvæðagreiðslu? Fleira en „launaliðurinn“ hlýtur að hanga á spýtunni.