19.8.2020 9:43

Ekki busað án bóluefnis

Vonir standa til að með bóluefni verði unnt að kippa flestu í liðinn sem aflaga hefur farið þótt enginn segi fyrir um það núna hvaða varanleg áhrif faraldurinn hefur á daglegt líf okkar.

Almennt er myndin dökk sem nú er dregin vegna COVID-19-faraldursins. Bylgjan sem reis fyrir nokkrum vikum hér og í nágrannalöndunum kallar enn á ný á efnahagslegar þrengingar og skerðingar á rétti til mannlegra samskipta.

Framhaldsskólar hefjast um þessar mundir hér á landi. Þótt takist að skipuleggja kennslu á þann veg að nemendur geti sótt tíma fara nemendur á mis við félagslega þáttinn sem oft skapar tengsl og vináttu sem endist alla lífsleiðina.

Margrét Tekla Arnfríðardóttir er að hefja nám í Menntaskólanum í Reykjavík (MR) og segir í Morgunblaðinu í dag (19. ágúst):

„Við ímynduðum okkur ekki að þetta yrði svona þegar við myndum byrja í menntaskóla en þau eru samt að vinna í þessu þannig að eitthvað verður með eðlilegum hætti. Ég vona til dæmis að busaballið verði, þótt það verði öðruvísi en vanalega og að við verðum busuð. Því það er dálítið skrýtið að byrja í skólanum og vera ekki tæknilega séð partur af skólanum, þar sem við höfum ekki verið busuð.“

Vandinn birtist sem sagt í ýmsum myndum og mörgum mun alvarlegri en þeim að verða ekki busaður. Vonir standa til að með bóluefni verði unnt að kippa flestu í liðinn sem aflaga hefur farið þótt enginn segi fyrir um það núna hvaða varanleg áhrif faraldurinn hefur á daglegt líf okkar. Enginn veit á hinn bóginn enn hvenær bóluefni verður tilbúið til fjöldadreifingar eða hve áhrifaríkt það verður gegn veirunni. Skapar það verulega óvissu um framtíðina.

Files-health-virus-vaccine-pandemic-pharmaceutical-industryMynd úr Jyllands-Posten.

Nú í haust munu væntingar tengdar bóluefni setja sífellt meiri svip á fjármála- og fjárfestingaheiminn. Fjármálastofnanir um heim allan spá miklum umskiptum, allar forsendur gjörbreytist með bóluefninu.

Hjá Goldman Sachs-fjármálafyrirtækinu búast menn við að bóluefni komi til sögunnar í ár og þess vegna spáir bankinn 2% hagvexti á fyrsta ársfjórðungi 2021 – á fyrri helmingi 2020 var 6% samdráttur í heimsbúskapnum. Goldman Scahs telur að vöxturinn verði 6,2% árið 2021.

Hjá Barclays-banka í Bretlandi reisa menn spár um vöxt með vísan til vonar um bóluefni og sama er að segja um Danske Bank. Í spá Nordea-banka gætir meiri varúðar, þótt sex framleiðendur á bóluefni hafi náð góðum árangri á skömmum tíma séu óvissuþættirnir of margir til að unnt sé að slá nokkru föstu um endanlega niðurstöðu.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, og greiningarfyrirtækið Good Judgment Project segja að rúmlega 160 aðilar vinni að þróun bóluefnis. Þar af séu sex komin á þriðja stig rannsókna og þróunar. Þess er vænst að fyrstu niðurstöður verði birtar í október.

Fyrir skömmu kynnti Vladimir Pútin Rússlandsforseti bóluefni til sögunnar. Það er talið svo lítt þróað að því hefur verið líkt við Molotov-kokkteil, það er heimatilbúna sprengju.

Miðað við milljarðana sem varið hefur verið til rannsókna og þróunar bóluefnis og alla þekkinguna sem vísindamenn hafa hlýtur að mega vænta þess fyrr en síðar að glíman við veiruna verði tæknilegt úrlausnarefni eins og allt annað.