8.1.2025 9:46

Ekkert „sýndarsamráð“ um sparnð

Líklegt er að stjórnarflokkarnir velji þingmenn í þriggja manna hóp greinenda. Með því yrði tryggt að kjósendur gætu kallað þá til ábyrgðar auk þess sem innan þingflokka stjórnarinnar yrðu málsvarar fyrir tillögunum.

Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að skjóta megistefnu sinni í ríkisfjármálum til almennings með því að leggja hana í svonefnda samráðsgátt er ekkert „sýndarsamráð“ segir stjórnarþingmaður.

Tillögurnar um hagsýni og hagræðingu eru nú í kringum 3.000. Framtakið mælist vel fyrir hjá mörgum. Þeir finna þarna farveg fyrir hugmyndir sínar. Margir kjósa nafnleysi. Í sumum tilvikum kann að vera um viðkvæm mál að ræða, til dæmis uppljóstranir um sukk og bruðl.

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segir að þriggja manna nefnd, fulltrúar allra stjórnarflokkanna, muni fara yfir tillögurnar. Þá segir hún að nota eigi gervigreindartækni við vinnuna. Ekkert hefur enn verið gefið upp um hverjir greinendur ríkisstjórnarinnar verða eða hvert verður forrit þjarksins sem falið verður að leggja mat á hugmyndirnar um sparnað og hagræðingu. Miklu skiptir fyrir alla sem lagt hafa framtaki ríkisstjórnarinnar lið að gagnsæi ríki um framhaldið.

1313306

Líklegt er að stjórnarflokkarnir velji þingmenn í þriggja manna hóp greinenda. Með því yrði tryggt að kjósendur gætu kallað þá til ábyrgðar auk þess sem innan þingflokka stjórnarinnar yrðu málsvarar fyrir tillögunum. Þingmennirnir myndu leggja sig fram um að tillögunum yrði fylgt eftir við gerð fjárlaga og aðra pólitíska úrvinnslu. Málskotið til almennings leiðir til að tillögusmiðir telja sig eiga hönk upp í bakið á ríkisstjórninni. Hér er um viðkvæmt vandaverk að ræða.

Þingmenn stjórnarflokkanna binda miklar vonir við það sem þeir fá í hendur eftir úrvinnslu úr samráðstillögunum eins og sjá má til dæmis á grein sem María Rut Kristinsdóttir, þingmaður Viðreisnar, skrifar í Morgunblaðið í dag (8. janúar).

Hún segir öllu máli skipta að ríkisstjórnin „slái nýjan tón... hinnar hagsýnu húsmóður sem einsetur sér að fara betur með og endurhugsa leikinn. Vera lausnamiðuð og finna leiðir. Án þess þó að drepa stemninguna á heimilinu“. Greininni lýkur María Rut á þessum orðum: „Við hlökkum til verkefnisins með traustu samráði við þjóðina. Það er ekkert sýndarsamráð. Heldur raunveruleg aðgerðastjórnun.“

Telja má líklegt að með þessum uppörvandi orðum vilji María Rut búa í haginn fyrir að hún verði sjálf sett í greiningarnefndina.

Dagur B. Eggertsson vænti þess að verða formaður þingflokks Samfylkingarinnar en svo virðist sem enginn í þingflokknum hafi verið sömu skoðunar og hann. Verður hann settur í hóp hinna hagsýnu? Fær hann þannig þá viðurkenningu sem hann telur sig eiga inni eftir borgarstjóraárin?

Ragnar Þór Ingólfsson hlýtur að verða fulltrúi Flokks fólksins við gerð opinberra sparnaðartillagna. Enginn hefur kveðið fastar að orði en hann um opinbera óráðsíu.

Augljóst er af orðum forsætisráðherra að seta í þessari greiningarnefnd er mikilvægt trúnaðarstarf fyrir stjórnarsamstarfið. Fjölmiðlar og almenningur sýna því mikinn áhuga hverjir veljast í hópinn og hvaða stöðu tillögur hans fá innan stjórnkerfisins.