8.1.2026 10:43

Ekkert skjól í Pútin

Fréttir voru um að Pútin hefði sent kafbát á vettvang til að tryggja öryggi Marinera. Sé svo reyndist hann gagnslaus. Sama er að segja um diplómatísk mótmæli Rússa í Washington.

Yfirlýst stefna Donalds Trump er að ná valdi yfir olíuvinnslunni í Venesúela. Með því ætlar hann að stjórna gangi mála í landinu. Til þess að þetta takist verður hann að stöðva skuggaflotann sem stundar ólögmæta olíuflutninga. Þar eiga Rússar mikilla hagsmuna að gæta eins og ráða má af áherslu þeirra á að olíuskipið Marinera kæmist frá Karíbahafi í rússneska höfn.

Eftir að skip bandarísku strandgæslunnar hófu undir lok desember 2025 eftirför skipsins Bella 1, sem skráð var í Gvæana fyrir brot á viðskiptabanni við Venesúela, var skráningu skipsins breytt og það flutt undir rússneska fána. Þannig hélt það út á Atlantshaf, vafalaust í þeirri trú að Trump myndi láta það í friði af tillitssemi við Vladimir Pútin sem vill að litið sé á sig sem leiðtoga risaveldis.

Trump hafði gefið út fyrirmæli um að stöðva skyldi öll skip sem hefðu verið sökuð um ólögmæta olíuflutninga fyrir Venesúela. Bandaríski herinn tók tvö slík skip í sínar hendur miðvikudaginn 7. janúar og var Marinera annað þeirra.

Screenshot-2026-01-08-at-09.30.24Bandarískur strandgæslumaður fylgist með rússneska olíuskipinu Matinera.

Bandaríska strandgæslan hafði fylgt skipinu eftir og menn hennar og bandarískir hermenn tóku það um hádegisbil 7. janúar um 177 sjómílur suður af Kötlutanga, 305 sjómílur norðvestur af Skotlandi og 264 sjómílur vestsuðvestur af Færeyjum. Stefndi það í norðaustur innan íslensku efnahagslögsögunnar.

Þetta er fordæmalaus aðgerð af hálfu bandarísku strandgæslunnar og verður deilt um lögmæti hennar. Bandaríkjastjórn segir að hún sé að framfylgja bandarískum dómsúrskurði og á réttmæti aðgerðarinnar reyni fyrir bandarískum dómara. Þetta eru sömu rök og notuð eru til að réttlæta handtöku Maduro-hjónanna 3. janúar og flutning þeirra fram fyrir dómara í New York.

Fréttir voru um að Pútin hefði sent kafbát á vettvang til að tryggja öryggi Marinera. Sé svo reyndist hann gagnslaus. Sama er að segja um diplómatísk mótmæli Rússa í Washington.

Atvikið verður ekki túlkað á annan hátt en sem mikið áfall fyrir Pútin. Áhrif hans eru engin utan Rússlands. Hann þrjóskast við gagnvart Úkraínumönnum með því að senda dróna gegn borgaralegum mannvirkjum, orkuverum, leikskólum og sjúkrahúsum eins og hver annar hryðjuverkamaður.

Tveir skjólstæðingar Pútins fuku af valdastólum án nokkurs viðnáms eða aðstoðar af hans hálfu: Bashar al-Assad, harðstjóri í Sýrlandi, og Nicolas Maduro, einræðisherra í Venesúela. Enginn nýtur neins skjóls í stuðningi hans og nú stendur klerkaveldið í Íran, bandamenn hans gegn Úkraínu, á brauðfótum.

Marinera er á leið til Bandaríkjanna undir stjórn bandarísks skipstjóra. Hvorki á landi né sjó má Pútin sín neins nema sem hryðjuverkamaður. Til þess verða stjórnvöld um heim allan að líta, líka hér á landi.