14.7.2019 10:02

Ekkert framsal í þriðja orkupakkanum

„Ég myndi aldrei styðja mál sem fæli það í sér. Málið snýst um réttindi neytenda og upplýsingaskyldu orkufyrirtækja sem eru að mestu opinber.“

Ítarlegt viðtal birtist við varaformann Sjálfstæðisflokksins, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, í Fréttablaðinu laugardaginn 13. júlí. Ólöf Skaptadóttir ritstjóri tekur viðtalið sem snýst um flokkinn og málaflokkana sem falla undir Þórdísi Kolbrúnu, einkum sem ráðherra ferðamála og iðnaðar.

Screenshot_2019-07-14-190713-pdf-190713-pdf-1-

Sem iðnaðarráðherra hefur hún verið í eldlínu átaka um þriðja orkupakkann. Þau hafa verið harkalegri á vettvangi Sjálfstæðisflokksins en annars staðar þótt efni málsins gefi alls ekki tilefni til stóryrðanna sem fallið hafa um hættuna af innleiðingu þessa máls hér á landi.

Í viðtalinu segir:

„Það er augljóst að það er deilt um orkupakkann. Ég hef lagt mig fram um að koma upplýsingum á framfæri. Ég hef átt hreinskiptin samtöl við alls konar Sjálfstæðisfólk og aðra um orkupakkann. Við höfum lagt í mikla vinnu, breytt málinu og brugðist við áhyggjum. Það að vera stjórnmálamaður snýst ekki um að hlusta á skoðanakannanir eða beygja sig fyrir þeim eða þegar einhver skrifar um mál með ákveðnum hætti heldur að hlusta á sína sannfæringu og klára mál, þó þau séu erfið. Ég fór ekki í pólitík af því að ég héldi að það væri auðvelt. Þriðji orkupakkinn er hluti af öðru, stærra samhengi. Hluti af því að standa vörð um EES.“ En landsfundarályktun flokksins sagði að flokkurinn hafnaði frekara framsali á orkuauðlindum.„Við erum með engu móti að framselja auðlindir í innleiðingu á orkupakkanum,“ segir Þórdís.

„Ég myndi aldrei styðja mál sem fæli það í sér. Málið snýst um réttindi neytenda og upplýsingaskyldu orkufyrirtækja sem eru að mestu opinber. Umræðan hefur að miklu leyti snúist um sæstreng. Alveg óháð þriðja orkupakkanum væri hægt að leggja sæstreng. Það er jafn erfitt að gera það núna og áður. En vegna umræðunnar höfum við girt fyrir það að hægt sé að leggja sæstreng með ákvörðun eins ráðherra einhvern tíma í framtíðinni. Nú er það allt Alþingi sem þarf að samþykkja slíka framkvæmd og opnað hefur verið á þjóðaratkvæðagreiðslu um framkvæmdina ef einhvern tímann kæmi til þess að slík framkvæmd kæmist á dagskrá. Því hún er ekki á dagskrá þessarar ríkisstjórnar.“

Allt er þetta rétt sem þarna segir. Innskot ritstjórans um ályktun landsfundarins er aðeins til áminningar um að með samþykkt orkupakkans eru engar auðlindir framseldar.

Hér hefur því margoft verið haldið fram að þessi misskilningur um framsalið hafi einfaldlega ráðist af því að höfundar tillögunnar á landsfundinum voru undir áhrifum norsku samtakanna Nei til EU. Þau halda því fram að Norðmenn hafi framselt auðlindir eða forræði þeirra til ESB vegna raforkusölu frá Noregi inn á ESB-orkunetið. Hér er ekki um neina slíka tengingu að ræða.