Ekið á leiðarenda
Kirsuber í Kaldrananeshreppi og gómsætt lambakjöt úr Árneshreppi.
Fjórða dag ferðar okkar Hlédísar héldum við í norður frá Hólmavík og heimsóttum tvo hreppa, Kaldranaeshrepp og Árneshrepp.
Við ókum um Drangsnes í grösugan og skógi vaxinn Bjarnarfjörð og efndum til samtals við heimafólk á Hótel Laugarhóli. Þaðan héldum við norður Strandaveg til Finnbogastaðaskóla í Trékyllisvík þar sem Sigrún Sverrisdóttir og Davíð Már Bjarnason bændur tóku á móti okkur og heimamönnum sem komu til samtals um sauðfjárrækt og atvinnumál í Árneshreppi, nyrsta sveitarfélaginu í Strandasýslu.
Við sannreyndum í samtölum okkar að mikil breyting er að verða í þessum sauðfjárbyggðum og nauðsyn að veita viðspyrnu til að þessi mikilvægi þáttur menningar og mannlífs verði ekki að engu. Gerðist það yrði vegið að öllu öðru.
Hér birti ég myndir úr ferð okkar en þoka lá yfir stórum hluta leiðarinnar og hitastigið var um 7 gráður. Umferðin var ekki mikil á holóttum og blautum Strandaveginum en hvarvetna þar sem við áðum eða funduðum var okkur hlýlega tekið.
Hlédís fær sér spínat í gróðurhúsinu á Svabshóli í Bjarnarfirði. Finnur Ólafsson, oddviti Kaldrananeshrepps, reisti gróðurhúsið sem er algjörlega sjálfbært. Hann skýrir undur hússins.
Kirsuber á Svanshóli í Kaldrananeshreppi.
Samtal á Hótel Laugarhólií Bjarnarfirði.
Ekið norður Strandaveg,
Samtal hjá Sigrúnu og Davíð í Finnbogastaðaskóla.
Með Valgeiri Benediktssyni í Árnesi í byggðasafninu Kört sem hann reisti, á og rekur.
Safnhúsið Kört sem Valgeir reisti úr rekavið og klæddi einnig að utan með viðnum.
Í félagsheimili skammt frá Finnbogastaðaskóla var Landsmót bihjólafólks á Íslandi haldið laugardaginn 1. júlí,
Við ókum þangað sem vegurinn endar í Norðurfirði á Ströndum. Hrafn Jökulsson gaf árið 2007 út bókina Þar sem vegurinn endar.
Á suðurleið renndum við niður að Gjögri,
Þokunni létti aðeins síðla dags svo að við sáum allan fossinn sem gnæfir yfir Djúpuvík.
Það var notalegt að njóta kvöldverðar í hlýlegum matsal Hótels Djúpavíkur. Þar mátti meðal annars fá gómsætar lambalundir úr Árneshreppi.