1.1.2019 12:13

Eitt áramótamál ljósvakanna

Á einum mánuði, frá 28. nóvember fram að áramótum, ýtti eitt mál öllu öðru til hliðar ef marka má áramótauppgjörið.

Gleðilegt ár! Þakka góð og ánægjuleg samskipti á liðnu ári.

Það vakti undrun að heyra prest segja í prédikun að kvöldi gamlársdags að misskipting hefði stóraukist hér á landi. Forvitnilegt væri að vita við hvaða tímabil presturinn miðaði eða að hvaða hópum athygli hans beindist. Sé tekið mið af viðurkenndum alþjóðlegum og innlendum mælikvörðum standast þessi orð hans ekki.

Bára Halldórsdóttir hefði varla verið kjörin maður ársins bæði af hlustendum Bylgjunnar og lesendum Vísis annars vegar og hlustendum rásar 2 hins vegar ef aukin misskipting væri almenningi efst í huga um áramót. Valið á henni og áherslur umsjónarmanna Kryddsíldar á Stöð 2 og Skaups ríkissjónvarpsins sýndu að áhuginn beindist meira að siðferðilegum efnum en efnislegum um þessi áramót.

Á einum mánuði, frá 28. nóvember fram að áramótum, ýtti eitt mál öllu öðru til hliðar ef marka má áramótauppgjörið: upptaka á ósæmilegu drykkjurausi sex þingmanna á bar skammt frá Alþingishúsinu.

IMG_7806Hafi þetta mál verið gert upp í ljósvakamiðlunum um áramótin er uppgjörinu ólokið á stjórnmálavettvangi. Forsætisnefnd alþingis klúðraði meðferð málsins af sinni hálfu og tókst ekki að vísa því til siðanefndar þingmanna. Flokkur fólksins er í sárum. Uppgjörinu er ólokið innan Miðflokksins eins og sést af afsögn Viðars Freys Guðmundssonar, formanns Miðflokksfélagsins í Reykjavík. Hann sagði m.a.:

„Ástæður þessa eru langvarandi óánægja með skipulagsleysi við stjórn flokksins og málefnastarf.[...] Það vantar skýrari ábyrgðarkeðjur og lýðræðislegri ferla í starfið til að hægt sé að taka á erfiðum málum sem kunna að koma upp og eins til að reka hefðbundið lýðræðislegt flokkastarf.“

Þetta er dæmigerð lýsing á eins-manns- eða eins-málsflokki. Flokkarnir þrír sem standa að núverandi ríkisstjórn eru reistir á traustum lýðræðislegum grunni þar sem „ábyrgðarkeðjur“ eru skýrar. Þeim hefur einnig tekist að skapa traustan grunn. Honum má ekki spilla öllum til tjóns í átökum um kaup og kjör á nýju ári. Tekið skal undir með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra sem sagði í áramótaávarpi sínu:

„Við verðum öll að nálgast viðfangsefnið af virðingu fyrir þeirri ábyrgð sem við berum en í komandi kjarasamningum felst tækifæri til að stíga nauðsynleg skref að því sameiginlega markmiði að halda áfram að bæta lífskjör alls almennings í samfélagi okkar.“

Sé þetta haft að leiðarljósi má á raunhæfan hátt koma áfram í veg fyrir að misskipting aukist í íslensku samfélagi.