6.11.2024 9:20

Einstakur sigur Trumps

Hér hefur í áranna rás ekki verið lýst neinni aðdáun á Trump og beinist gagnrýnin að málflutningi hans, orðbragði og stjórnarháttum. Seigla hans er ótrúlegt. 

Donald Trump vann einstakan sigur með því að ná endurkjöri sem forseti Bandaríkjanna 5. nóvember 2024 eftir fjögur ár utan Hvíta hússins.

Enginn Bandaríkjaforseti hefur yfirgefið Hvíta húsið á sama hátt og Trump gerði 6. janúar 2021 eða staðið í jafnströngu vegna ásakana um refsiverða háttsemi og Trump hefur gert undanfarin fjögur ár. Hann blés á þetta allt sem pólitískar ofsóknir og hefur nú hlotið umboð til að leiða þjóðina að nýju úr Hvíta húsinu með meirihluta repúblikana á Bandaríkjaþingi að baki sér.

Screenshot-2024-11-06-at-09.18.23Donald Trump flytur sigurræðu sína að kvöldi kosninganna 5. nóvember 2024.

Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna, hafði ekki langan tíma til að sanna sig sem frambjóðandi. Joe Biden tilkynnti 21. júlí að hann yrði ekki í framboði til endurkjörs. Kamala Harris tók 22. ágúst framboðstilnefningu demókrata án mótframboðs í flokknum. Henni var spáð góðu brautargengi en nú er sá dómur felldur að hún hafi háð gjörsamlega misheppnaða kosningabaráttu.

Hér hefur í áranna rás ekki verið lýst neinni aðdáun á Trump og beinist gagnrýnin að málflutningi hans, orðbragði og stjórnarháttum. Hann krefst hollustu við sjálfan sig umfram lög og eigin flokk. Seigla hans er ótrúleg. Hann leggur þá í einelti innan og utan eigin raða sem hann telur ekki fara að vilja sínum og hagsmunum í einu og öllu. Boðskapur hans er í raun einfaldur: Treystið mér og ég mun fix it. Heimurinn er flóknari en þessi einfaldi boðskapur. Loforð hans eru skýr og í sigurræðu sinni sagðist hann ætla að standa við þau: Þurrka úr verðbólgu, loka landamærum og senda milljónir manna úr landi, fyrir utan að binda enda á hernaðarátök á fjarlægum slóðum.

Kamala Harris reyndi að ná kjöri í flokki demókrata fyrir forsetakosningarnar 2020. Þá skipaði hún sér yst til vinstri í baráttunni án þess að hafa árangur sem erfiði. Frá þeim tíma eru til myndskeið og ræðubrot með boðskap hennar sem repúblikanar notuðu miskunnarlaust í auglýsingum gegn Harris í forsetakosningunum núna. Þar blasti við öllum að hún væri í raun á vinstri jaðrinum með sjónarmið sem hvorki féllu í kramið hjá demókrötum þá né almennum kjósendum núna.

Harris reyndist í raun misheppnaður forsetaframbjóðandi sem skaut sér undan að svara spurningum um stefnumál og vísaði til einhvers sem enginn vissi hvað þýddi í raun og veru.

Donald Trump er 78 ára þegar hann er kosinn í annað sinn, elstur allra sem hafa verið kjörnir í valdamikið forsetaembættið. Stíll hans er mjög persónulegur og hann raðar í kringum sig já-mönnum, reynslunni ríkari frá fyrri forsetatíð. Margir nánustu samstarfsmanna hans þá eru meðal hörðustu andstæðinga hans og liggja ekki á skoðunum sínum um óvandaða stjórnarhætti hans.

Bandarískir kjósendur hafa talað. Ákvörðun þeirra er skýr. Nú er að sjá hvað gerist næst.