Einkarekin skimun leyfð en ekki skurðaðgerð
Hvers vegna er einkarekstri hampað við skimun en ýtt til hliðar vegna skurðaðgerða? Skýringar óskast.
Í Morgunblaðinu þriðjudaginn 28. apríl birtist frétt um að svonefndar „valkvæðar skurðaðgerðir“ yrðu leyfðar frá 4. maí þegar losað verður um framkvæmd sóttvarnareglna hér. Hér er til dæmis um liðskiptaaðgerðir að ræða en þeim var frestað tímabundið frá 23. mars vegna kórónuveirufaraldursins og átti frestunin fyrst að gilda til 31. maí. Vegna þess að baráttan við COVID-19-faraldurinn hefur gengið betur en miðað var við í upphaflega banninu er því aflétt tæpum mánuði áður en ætlað var.
Í fréttinni segir að blaðið hafi spurt heilbrigðisráðuneytið hvort rætt hafi verið að semja við Klíníkina, einkarekna skurðstofu, um liðskiptaaðgerðir í ljósi núverandi ástands. Svar ráðuneytisins er:
„Ekki hefur verið rætt sérstaklega um að semja við einkaaðila um framkvæmd liðskiptaaðgerða, þegar valkvæðar aðgerðir verða mögulegar aftur 4. maí. Aftur á móti verður það hluti af þeim fjölmörgu verkefnum sem heilbrigðiskerfið mun óhjákvæmilega fást við á komandi vikum og mánuðum að vinna á biðlistum eftir ýmsum aðgerðum sem ekki hefur verið hægt að sinna vegna Covid-faraldursins.“
Þarna birtist sama afstaða ráðuneytisins og áður,
að frekar skuli Sjúkratryggingar standa straum af kostnaði við að senda Íslendinga
í liðskiptaaðgerð í útlöndum en semja við Klíníkina og greiða minna en erlendis
fyrir aðgerðina.
Frá Íslenskri erfðagreiningu, deCode
Hjálmar Þorsteinsson, bæklunarskurðlæknir og framkvæmdastjóri Klíníkurinnar segir við Morgunblaðið:
„Það sem er merkilegt við afstöðu íslenskra heilbrigðisyfirvalda er að skapa ekki sömu réttindi innanlands og gilda utanlands. [...] Engin lönd taka nú við sjúklingum, sem ekki eru búsettir í landinu, í valkvæðar aðgerðir. Þessi réttindi sjúklinga [til að fara til útlanda] eru því í raun og veru horfin. Þá er mjög sérstakt ef ekki á að skapa leið fyrir sjúklinginn innanlands, sérstaklega þegar aðstaðan er fyrir hendi.“
Sé ekki unnt að veita sjúklingum aðgang að öðrum skurðstofum en á vegum íslenska ríkisins lengjast biðlistar enn þar sem sjúklingar geta ekki notið þess EES-réttar að leita sér lækninga erlendis. Við þetta kemur til sögunnar fjölmennari hópur en áður sem eignast þennan rétt og þar með kröfu á hendur Sjúkratryggingum um að greiða kostnað við aðgerð erlendis. Á tímum efnahagsþrenginga er enn meiri þörf en áður að fara vel með fé skattgreiðenda. Ekki einu sinni það sjónarmið megnar að minnka andstöðu heilbrigðisráðuneytisins við einka-liðskiptaaðgerðir hérlendis.
Skimun í leit að COVID-19 hefur verið hlutfallslega meiri hér en erlendis. Þar skiptir mestu að einkafyrirtækið deCode fékk heimild til að skima. Þetta einkafyrirtæki starfar á heilbrigðissviðinu við hlið ríkisskimunar. Hvers vegna er einkarekstri hampað við skimun en ýtt til hliðar vegna skurðaðgerða? Skýringar óskast.