Einhugur um forustu - sókndjörf stefnumörkun
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sleit 43. landsfundi flokksins rétt fyrir klukkan 16.00 sunnudaginn 18. mars.
Bjarni var endurkjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins með 710 atkvæðum eða 96,2% atkvæða. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir hlaut glæsilega kosningu til embættis varaformanns Sjálfstæðisflokksins með 720 atkvæðum eða 95,6% gildra atkvæða. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir var endurkjörin ritari Sjálfstæðisflokksins með 664 atkvæðum eða 93,5% gildra atkvæða.
Þessar tölur endurspegla eindrægnina sem ríkti á landsfundinum. Allt gekk einstaklega vel og skipulega fyrir sig undir stjórn Unnar Brár Konráðsdóttur og Einars Kristins Guðfinnssonar, fyrrverandi forseta alþingis.
Áslaug Arna, Þórdís Kolbrún og Bjarni fagna í lok landsfundar (af xd.is).
Bjarni Benediktsson hefur legið undir ómaklegum persónulegum árásum undanfarin misseri. Mikill stuðningur við Bjarna í formannskjörinu er verðugt svar þessarar miklu framvarðarsveit flokksins við þessari atlögu andstæðinga hans. Ættu þeir nú að snúa sér að öðru en þessum hælbitum en þar hafa vefsíðan Stundin og Sigurjón Magnús Egilsson bloggari skipað sér í fremstu röð í aðdraganda landsfundarins og á meðan hann fór fram.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir nýtur ótrúlega mikils trausts. Í aðdraganda landsfundar var hún óþreytandi að hitta flokksmenn víða um land og á fundum sem boðað var til af stuðningsmönnum hennar. Ég átti þess kost að sitja einn slíkan fund og hreyfst eins og aðrir af einlægni hennar þegar hún lýsti áhuga sínum og metnaði að taka að sér þetta trúnaðarstarf fyrir flokkinn.
Þegar Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir var kjörin ritari Sjálfstæðisflokksins árið 2015 kom þetta embætti fyrst til sögunnar. Framboð hennar kom óvænt fram á landsfundinum og Guðlaugur Þór Þórðarson sem orðaður hafði verið við framboð í það lýsti yfir að hann styddi Áslaugu Örnu. Hún fær eindregið endurnýjað traust á fundinum núna.
Á landsfundinum síðdegis laugardaginn 17. mars fluttu Berglind Ósk Guðmundsdóttir frá Akureyri og Tryggvi Hjaltason frá Vestmannaeyjum „örerindi“. Það sem Tryggvi sagði féll vel að því sem ég sagði hér í gær um landsfund tækifæranna.
Hann sagðist hafa rannsakað hvort Ísland gæti boðið barnungum syni sínum „að vera land tækifæranna með fjölbreyttara landslagi hálaunaðra alþjóðlegra þekkingarstarfa“.
Niðurstöðurnar hefðu verið afgerandi. „Ísland hefur alveg einstaklega áhugavert innbyggt samkeppnisforskot þegar kemur að því að byggja upp og hlúa að rannsóknum og þróun, þeim hluta í virðiskeðju fyrirtækja sem hefur mestu virðisaukninguna og áhugaverð hálaunastörf,“ sagði Tryggvi.
Vopnaður þessari niðurstöðu hóf hann að beita sér á vettvangi Sjálfstæðisflokksins í þágu þessa málstaðar meðal annars með tillögu sem hlaut brautargengi á landsfundi 2015. Fimm mánuðum eftir þann landsfund var lagt fram frumvarp að lögum, nýsköpunarfrumvarpið, þar sem lagðar voru til 5 breytingar á löggjöf landsins. Fjórar af þeim voru reistar á tillögunum sem Tryggi hafði ásamt ungum Sjálfstæðismönnum komið í gegn á landsfundi. Fumvarpið er nú lög „og umhverfi fyrir nýsköpun og rannsóknir og þróun tekur stakkaskiptum á Íslandi,“ sagði Tryggvi.
Nú er Bjartur, sonur Tryggva, kominn í grunnskóla og Tryggvi tók því að kynna sér „af krafti umhverfið í grunnskólum landsins og komst að því að drengirnir okkar búa orðið við ömurlegan raunveruleika í kerfi sem er að bregðast þeim. Þriðjungur þeirra getur ekki lesið sér til gagns við útskrift úr grunnskóla. Einungis þriðjungur af nýnemum í Háskóla Íslands eru drengir og drengirnir okkar slá Evrópu og heimsmet í ávísun hegðunarlyfja“.
Tryggvi skrifaði stutta grein með samantekt á helstu niðurstöðum sínum á facebook fyrir rúmri viku og henni var deilt inn á fjölmiðil og varð hún vinsælasta grein vikunnar á Íslandi með yfir 80 þúsund innlit. Hundruð hafa haft samband við Tryggva. „Þjóðinni er brugðið en hún trúir ekki að hægt sé að snúa þessari þróun við af krafti,“ sagði Tryggvi og lauk orðum sínum á þennan veg:
„Ég hef séð hvað Sjálfstæðisflokkurinn getur gert. Stöndum saman og höldum áfram að breyta samfélaginu okkar og sem næsta verkefni legg ég til að við björgum drengjunum okkar.“
Í ályktun landsfundarins árið 2018 segir:
„Athuga þarf sérstaklega stöðu drengja í skólakerfinu, en þriðjungur drengja getur ekki lesið sér til gagns við útskrift úr grunnskóla og drengir eru einungis þriðjungur af nýnemum í háskólum. Skoða þarf þarfir þeirra og brotalamir skólakerfisins gagnvart þeim og líta þarf til lausna eins og aukinnar kennslu í gegnum verklegt nám og í leik.
Einnig þarf að auka frelsi í námsvali og miðla þarf grunnfærni með því að virkja áhugasvið og draga úr áherslum við lærdóm eftir fastri forskrift. Skoða þarf hvatastrúktúr kennara til þess að stuðla að nýsköpun í skólakerfi.
Þá þarf að fjölga karlmönnum í kennarastétt.“
Það verður spennandi að sjá Tryggva og aðra unga sjálfstæðismenn fylgja þessu eftir af þunga.