29.11.2018 10:06

Einelti að hætti pírata

Á mbl.is miðvikudaginn 28. nóvember er vitnað í Björn Leví sem segir „algjört bull“ að hann eða Píratar leggi Ásmund Friðriksson í einelti eins og hann hefur haldið fram.

Öll forsætisnefnd alþingis nema Jón Þór Ólafsson, fulltrúi Pírata, stóð að sex blaðsíðna niðurstöðu sem unnin var af lögfræðingum og skrifstofu alþingis vegna ásakana frá Birni Leví Gunnarssyni, þingmanni Pírata, í garð 62 þingmanna og Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, sérstaklega um misnotkun á aksturskotsnaði þingmanna. Taldi nefndin ekki tilefni til rannsóknar vegna ásakananna.

Málið var rætt á þingi mánudaginn 26. nóvember og röðuðu þingmenn Pírata sér þá á mælendaskrá undir liðnum fundarstjórn forseta og gagnrýndu niðurstöðu forsætisnefndar og vildu að málið færi til siðanefndar alþingis. Helga Vala Helgadóttir Samfylkingu tók undir með Pírötum!

731004Björn Leví Gunnarssson að þingstörfum, ljósm. mbl.is

Á mbl.is miðvikudaginn 28. nóvember er vitnað í Björn Leví sem segir „algjört bull“ að hann eða Píratar leggi Ásmund Friðriksson í einelti eins og hann hefur haldið fram. „Ég óska honum ekki þeirrar reynslu að lenda í einelti en ef hann myndi gera það þá myndi hann sjá muninn,“ sagði Björn Leví á rás 2.

Í byrjun nóvember var sagt frá klofningi innan raða Pírata. Atli Thor Fanndal blaðamaður starfaði sem pólitískur ráðgjafi Pírata en sagði skilið við flokkinn með færslu á Facebook 3. nóvember þar sem sagði meðal annars:

„Ég varð fyrir hrottaleg einelti sem barn. Það hefur kennt mér að ekkert er til sem heitir hlutleysi gagnvart slíku. Kafkaeskt einelti er hugsanlega það ógeðslegasta sem fyrir finnst. Það er ekkert eins ógeðslegt og að upplifa einelti sem hluta af strúktúr. Kerfi sem virðast svo fullt af dysfúnksjón að það hunsar allt mannlegt og fær fólk til að upplifa sig smátt og valdalaus eru nú oftar en ekki hönnuð af mikilli natni og virka nákvæmlega eins og þeim er ætlað. [...] Ég mun ekki starfa fyrir Pírata, veita neina ráðgjöf, vera í flokknum né kjósa hann eða styðja nema ég sjái áhrifafólk flokksins setja þeim sem standa að aðförinni stólinn fyrir dyrnar. Ítrekuðum ráðleggingum mínum um hvernig takast á við svona hegðun hefur ekki verið fylgt. Ég get ekki tengst hreyfingu sem setur kíkinn fyrir blinda augað gagnvart svona hegðun.“

Þarna er lýst vinnubrögðum innan raða Pírata. Þingmenn flokksins líða þessa framgöngu meðal eigin manna. Að þeir stundi sömu eða verri vinnubrögð gagnvart annarra flokka mönnum kemur engum á óvart. Á alþingi raða þeir sér svo á mælendaskrá til að níðast á forsætisnefnd og hrópa á siðanefnd á meðan siðleysið þrífst og magnast í þeirra eigin flokki.