17.8.2022 10:32

Einar snuprar Dag B.

Meirihluti borgarstjórnar er á hröðu undanhaldi í stærstu málum sínum, flugvallarmálinu og leikskólamálum. Samfylkingin á í vök að verjast.

Meirihluti borgarstjórnar er á hröðu undanhaldi í stærstu málum sínum, flugvallarmálinu og leikskólamálum. Samfylkingin á í vök að verjast.

Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og hugmyndafræðingur í skipulagsmálum, sem lýsti þeirri skoðun á sínum tíma að ekki ætti að leggja fleiri vegi af því að þeir fylltust bara af bílum, kallar þrjá látna borgarstjóra Sjálfstæðisflokksins Bjarna Benediktsson, Gunnar Thoroddsen og Geir Hallgrímsson sér til hjálpar í Fréttablaðinu í dag (17. ágúst) þegar hann veltir fyrir sér hvers vegna ekki hafi tekist að flytja flugvöllinn úr Vatnsmýrinni.

Meira en hálf öld er síðan Geir var borgarstjóri og 82 ár frá því að Bjarni mótmælti lagningu Breta á flugvellinum á þessum stað.

Ekkert af því sem þessir ágætu menn gerðu dugar sem afsökun fyrir Hjálmar á líðandi stund þegar 20 ár eru frá því að Dagur B. Eggertsson, flokksbróðir Hjálmars, varð borgarfulltrúi með brottför flugvallarins að markmiði. Hjálmar verður að líta í eigin barm til að finna skýringuna á því hvers vegna ekkert gerist í flugvallarmálinu.

Loforð Dags B. og Samfylkingarinnar um flugvöllinn eru sama marki brennd og loforðin um aðgang barna að leikskólum borgarinnar – ekkert er að marka þau. Þegar reiðir foreldrar koma til að mótmæla í ráðhúsinu brosir Dagur B. út að eyrum og gleðst yfir því að svona margir leggi leið sína í ráðhúsið!

1359485Foreldrar mótmæla ólestri í leikskólmálum í ráðhúsi Reykjavíkur (mynd:mbl.is)

Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs og staðgengill borgarstjóra, var í fréttatímum ríkisútvarpsins þriðjudaginn 16. ágúst og sagði að frá því að „okkur varð ljóst hvernig staðan var núna síðsumars varðandi innritun barna að þá var bara allt sett í gang“. Af þessum orðum má ráða að Einar hafi trúað kosningaáróðri Dags B. um að allt mundi blessast í leikskólamálum undir hans stjórn eftir kosningar.

Fréttamaður spyr: „Voru ekki algjör mistök að lofa plássum á þessum ókláruðu leikskólum?“

Einar Þorsteinsson svarar: „Við komum að málum hér í borginni eftir kosningar og við í Framsókn vorum ekki með þessi loforð, það voru aðrir flokkar. ... Jú, eflaust voru það mistök.“

Hann sér þá björtu hlið að bæði stjórnmálamennirnir og stjórnsýslan geti lært af þessu „hvernig við högum ákvörðunum í þessum málaflokki“.

Lokaorðin eru:

„Svo vil ég líka hvetja verktaka sem eru að byggja að einbeita sér að því að byggja leikskóla, það skiptir máli. Það er bara samvinnuverkefni að byggja og stýra borg og það þurfa allir að leggjast á árarnar í því.“

Einar Þorsteinsson skellir skuldinni á Dag B. fyrir óraunhæf kosningaloforð og á verktaka fyrir að byggja ekki nógu marga leikskóla.

Þeir Einar og Dagur B, gerðu óralangan samstarfssáttmála við myndun meirihlutans að loknum kosningunum 14. maí 2022. Nú þremur mánuðum síðar rennur allt í einu upp fyrir framsóknarmanninum að leikskólamálin séu í ólestri. Honum til glöggvunar hljóta verktakar að benda honum á að þeir taka ekki upp hjá sjálfum sér að byggja leikskóla. Það mál er einnig á borði borgarráðs.