7.8.2020 11:19

Eimskip: Narvík - Nuuk - New York

Eftir að fréttin birtist minnti gamall starfsmaður Eimskips mig á að forráðamenn félagsins hefðu í upphafi tíunda áratugarins lagt mikla vinnu í að kanna flutninga til og frá Noregi.

Á vefsíðunni vardberg.is birtist stutt frétt fimmtudaginn 6. ágúst sem hófst á þessum orðum:

„Gámur var settur í járnbrautarlest um miðjan júlí í kínversku borginni Hefei. Innan við tveimur vikum síðar hafði hann verið fluttur um Kazakhastan og Rússland alla leið til Finnlands. Frá Helsinki var gámurinn sendur með bíl í norður og síðan í vestur til Noregs.

Þriðjudaginn 4. ágúst var gáminum fagnað í norska hafnarbænum Narvík í Norður-Noregi. Þar tóku á móti honum áhugamenn um þróun þessarar flutningaleiðar sem vilja nýta höfnina í Narvík með dreifingarhöfn. Þeir segja að í Narvík sé allt sem þarf, lestartengingar við Finnland og Svíþjóð og stórskipahöfn.“

Þá segir að verði þessi flutningaleið vinsæl til flutninga frá Kína og þangað með járnbrautarlestum yrði það mikil lyftistöng fyrir atvinnulíf í Norður-Noregi en annarra þjóða menn gætu einnig nýtt sér þennan kost.

Container.narvik-annafillinaÁ þessum bíl var tilraunagámurinn fluttur síðasta spölinn frá Kína, milli Helsinki og Narvíkur.

Eftir að fréttin birtist minnti gamall starfsmaður Eimskips mig á að forráðamenn félagsins hefðu í upphafi tíunda áratugarins lagt mikla vinnu í að kanna flutninga til og frá Noregi. Eimskipsmenn hefðu þá tekið þátt í verkefni sem var stýrt frá Narvík um sjóflutninga þaðan í því skyni að opna gámaflutningaleið milli Norður-Noregs og Íslands, þar sem yrði umskipunarhöfn og flutningar Eimskips til Ameríku ykjust.

Hörður Sigurgestsson, forstjóri Eimskips, sagði mér frá för sinni árið 1992 norður í Kirkenes, norska landamærabæinn við Rússland, og þaðan í bíl austur eftir rússneska Kólaskaganum til Múrmansk. Var það ævintýraferð enda hafði svæðið verið lokað, helsta athafnasvæði stærsta sovéska herflotans sem lá nú fjárvana og stefnulaus við festar eftir hrun Sovétríkjanna.

Á þessum árum var ekki unnt að nota lestir í samgöngum milli Rússlands og Evrópuríkja, lestarteinar voru sérsmíðaðir í Sovétríkjunum af öryggisástæðum. Í Narvíkurfréttinni er ekki minnst á teinavandann en þess hins vegar getið að ekki fyrr en í desember 2019 hafi Pútin gefið leyfi fyrir því að innsiglaðir lestarvagnar færu í gegnum Rússland. Honum er mikið í mun að hindra innflutning til Rússa á varningi sem hann hefur bannað frá Vesturlöndum, íslenskur fiskur og kjöt fellur undir bannið.

Pútin hvetur mjög til vinnslu auðlinda Rússa í norðri. Hann er í kappi við tímann, áherslur í loftslagsmálum vinna gegn áformum hans um nýtingu olíu- og gaslindanna. Vinnslan ýtir undir siglingar á Norðurleiðinni, fyrir norðan Rússland, og þá gerir Pútin sé vonir um tekjur af ferðum almennra gámaskipa eftir því hafísinn hopar meira. Kann þetta að skapa öryggisleysi um lestarflutninga um Rússland.

Kínversk stjórnvöld fjármagna teina undir járnbrautir innan pólitíska fjárfestingarverkefnisins sem kennt er við belti og braut. Í Finnlandi var áhugi á að fá þá til að fjármagna göng undir Finnska flóa til Eistlands. Stjórn Eistlands hefur blásið hugmyndir um það út af borðinu. Brautarlagning milli Helsinki og Kirkenes er draumsýn. Samkeppnisforskot Narvíkur er augljóst. Eimskip hefur búið vel um sig í Noregi. Félagið er tekið til við flutninga frá Grænlandi til Ameríku með Faxaflóahafnir til umskipunar. Stefnan sem forráðamenn Eimskips mótuðu fyrir 30 árum var rétt – þrautseigja skiptir máli við framkvæmdina.