14.5.2018 10:18

Egill vill reka Ísraela úr söngvakeppninni

Þessi útlokunaraðferð minnir á það sem gerðist í september 2015 þegar meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur samþykkti viðskiptabann á Ísrael.

Undarlegt er að þeir sem telja sig sig sérstaka varðmenn mannréttinda  skuli jafnan vilja beita Ísraela þvingunum eða einangra þá. Eftir að ísraelsk söngkona sigraði í söngvakeppni Evrópu laugardaginn 12. maí sagði Egill Helgason, álitsgjafi og umræðustjóri ríkisútvarpsins, á vefsíðu sinni: „Ísrael á einfaldlega ekki að vera með í Eurovisijón og þjóðir Evrópu eiga helst ekki að sækja keppni þangað.“

Þessi útlokunaraðferð minnir á það sem gerðist í september 2015 þegar meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur samþykkti viðskiptabann á Ísrael vegna afsagnar Bjarkar Vilhelmsdóttur (Samfylkingu) og brottfarar til starfa í Palestínu.

Á ruv.is sagði miðvikudaginn 16. september 2015:

 „Björk Vilhelmsdóttir sem hætti í borgarstjórn í gær lagði tillöguna [um viðskiptabann] fram en hefð er fyrir því að fráfarandi borgarfulltrúar flytji kveðjutillögu á síðasta fundi sínum.“

Vegna almennrar gagnrýni sem þessi sérkennilega uppákoma hlaut hvarf meirihlutinn frá því að gleðja Björk Vilhelmsdóttur á þennan veg og síðan hefur málið legið í þagnargildi.

Netta Barzilai syngur sigurlagið.

Þarna var um pólitískt mál að ræða sem mótaðist af óvild í garð Ísraels og gyðinga. Svipuð viðhorf birtast nú vegna sigurs Nettu Barzilai í söngvakeppninni. Þannig sagði Sema Erla Serdar, fyrrv. formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi og fyrrv. formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, á FB-síðu sinni laugardaginn 12. maí:

„Með sigri Ísraels í Eurovision hefur Evrópa enn og aftur lagt blessun sína yfir fjöldamorð, landrán, hernám, pyntingar og ómannúðlega og ógeðfellda meðferð ísraelska hersins og ísraelskra stjórnvalda á saklausum palestínskum börnum, konum og mönnum. Þetta er ógeðslegt. Ógeðslegt.“

Er það stefna Samfylkingarinnar að vilja hlut Ísraels sem minnstan og verstan?

Í dag er þess minnst að 70 ár eru frá stofnun Ísraelsríkis. Af því tilefni hafa Hamas, öfga- og hryðjuverkasamtök sunní múslima á Gaza-svæðinu, hvatt til stórmótmæla við landamæri Ísraels. Vilja samtökin að mannfjöldanum rjúfi landamæragirðingu og ryðjist inn í Ísrael. Grunnt er á vináttu milli Hamas og Fatah-hreyfingarinnar sem fer með stjórn mála á yfirráðasvæði Palestínumanna. Ísraelsk stjórnvöld hafa ekki orðið við óskum Fatah að skrúfa fyrir vatn og rafmagn til Gaza-svæðisins til að lækka rostann í Hamas-liðum.

Þegar Egill Helgason sætti gagnrýni á FB fyrir afstöðu sína til Ísraels sagði hann meðal annars sér til varnar: „Hamas eru sannarlega hvimleið samtök“ og fór jafnvel mildilegri orðum um þau en löglega kjörin stjórnvöld í Ísrael.

Ætli stemmningin í Efstaleiti sé sú að ríkisútvarpið skuli hætta aðild að evrópsku söngvakeppninni verði Ísrael ekki rekið úr henni? Ísraelar unnu nú í fjórða sinn.