Efling í framboð með Sósíalistaflokknum
Nú í sömu andrá og Gunnar Smári boðar þingframboð Sósíalistaflokksins efnir Efling til kjaraátaka við Reykjavíkurborg á opnum fundum og með opnum bréfum.
Átökin milli Reykjavíkurborgar og Eflingar stéttarfélags magnast. Efling birtir nú (21. janúar) opið bréf til Dags B. Eggertssonar borgarstjóra í heilsíðuauglýsingum. Hann er sakaður um „grimma láglaunastefnu“ Sólveig Anna Jónsdóttir Eflingarformaður hefur auk þess tilkynnt Degi B. að Efling muni ekki eiga frekari viðræður við samninganefnd borgarinnar umfram það sem lög krefjast. Í þessu orðalagi felst að ríkissáttasemjari verði að boða fulltrúa Eflingar nauðuga á fund með samninganefndinni. Á hinn bóginn krefst Efling þess að kjaraviðræður við borgina fari hér eftir fram fyrir opnum tjöldum.
Að mati Eflingar dreifði samninganefnd Reykjavíkurborgar villandi upplýsingum til fjölmiðla af samningafundi hjá ríkissáttasemjara um samningstilboð Eflingar sem lagt var fram fimmtudaginn 16. janúar. Samninganefnd borgarinnar braut þannig bæði trúnað og lög að mati Eflingar.
Í stað þess að sitja fundi með samninganefndinni boðar Efling til opins samningafundar í Iðnó miðvikudaginn 22. janúar. Ætlar Efling að kynna tilboð sitt til borgarinnar um kjarasamning til ársloka 2022. Fyrir utan kröfu um sömu taxtahækkanir og í lífskjarasamningnum frá apríl 2019 er krafist „nauðsynlegrar og tímabærrar leiðréttingar á láglaunastefnu borgarinnar“.
Í Staksteinum í Morgunblaðinu í dag er vitnað í Þröst Ólafsson, hagfræðing og fyrrverandi framkvæmdastjóra verkalýðsfélagsins Dagsbrúnar, sem gagnrýnir kröfugerð Eflingar harðlega og segir að fyrir henni séu flutt rök „bólgin af fúkyrðum og gömlum slagorðum frá upphafsárum evrópskrar verkalýðshreyfingar í árdaga síðustu aldar“.
Þá segir Þröstur um þá aðferð sem félagarnir í Sósíalistaflokknum Sólveig Anna og Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, hafa valið sér:
„Er þetta strategía nýja Sósíalistaflokksins? Brjóta upp lífskjarasamninginn með því að einangra baráttuna við einn viðsemjanda (borgina) sem er stór, en er jafnframt með fjölda félagsmanna Eflingar í mjög viðkvæmum umönnunarstörfum (leikskólunum).
Nota á ungbörn sem eins konar gísla til að brjóta upp kjarasamninga á landsvísu og fá yfir okkur eina sæta gengisfellingu. Krónan mun ekki aðstoða Sósíalistaflokkinn í þessum skollaleik. Það hlaut að koma að því að stóru slagorðin frá 2018 yrðu virkjuð að lokum.“
Þessi greining Þrastar styðst við gild rök þegar litið er til aðferðanna sem Sólveig Anna, Viðar og Gunnar Smári Egilsson, formaður Sósíalistaflokksins, hafa beitt í valdabrölti sínu.
Fyrst var gripið til hreinsana á skrifstofu Eflingar og snúist gegn fyrrverandi starfsmönnum af hroka og meinfýsi. Nú í sömu andrá og Gunnar Smári boðar þingframboð Sósíalistaflokksins efnir Efling til kjaraátaka við Reykjavíkurborg á opnum fundum og með opnum bréfum. Efling stendur þannig straum af kostnaði við flokkspólitíska baráttu sósíalista. Þeir vita sem er að Samfylkingin er veikasti hlekkurinn í flokkakerfinu og takist að brjóta hana á bak aftur í Reykjavík sé ekki aðeins grafið undan lífskjarasamningnum heldur einnig opnuð ný leið inn á flokkspólitíska vettvanginn.