12.1.2024 9:57

Efla verður landamæravörslu

Efasemdir um gildi Schengen-aðildar okkar hafa fylgt henni síðan en niðurstaða íhugunar hefur ávallt orðið sú að kostir aðildarinnar séu meiri en gallarnir.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum, Úlfar Lúðvíksson, á heiður skilinn fyrir vasklega framgöngu undanfarna mánuði vegna alls þess sem gerist í umdæmi hans og kallar á ákvarðanir og ábyrgðarmikil störf lögregluliðsins.

Nú þegar líf er að færast í Grindavíkurbæ að nýju verður alvarlegt slys sem kallar á björgunaraðgerðir við aðstæður sem enginn hefur áður kynnst. Þar reynir einnig mjög á forystu lögreglustjórans.

Í þessari orrahríð er rætt við lögreglustjórann í Morgunblaðinu um þá hlið löggæslu í hans umdæmi sem snýr að landamæravörslu í flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli.

Í samtali við blaðamann segir lögreglustjórinn að færa megi „gild rök fyrir því að Ísland ætti að standa fyrir utan Schengen“, lega landsins sé með öðrum hætti en hjá öðrum Schengen-ríkjum, landið sé fjarri meginlandi Evrópu.

Þessi rök voru vissulega skoðuð um miðjan tíunda áratuginn þegar Halldór Ásgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra, og Þorsteinn Pálsson, þáverandi dómsmálaráðherra, lögðu til að Ísland gerðist aðili að Schengen-samstarfinu sem þá var að mótast, að öðrum kosti yrðu vegabréfalaus samskipti norrænu ríkjanna að engu fyrir Íslendinga.

Screenshot-2024-01-12-at-09.49.54

Ákvörðun um aðild að Schengen var tekin með samþykki alþingis og eftir að athugað var hvort hún samrýmdist stjórnarskrá landsins.

Efasemdir um gildi Schengen-aðildar okkar hafa fylgt henni síðan en niðurstaða íhugunar hefur ávallt orðið sú að kostir aðildarinnar séu meiri en gallarnir. Það tengist aðildinni mun meira en það sem snýr að skoðun vegabréfa á landamærum.

Við innleiðingu nýrrar hátækni undir merkjum gervigreindar og frekari upptöku á lífkennum vakna örugglega spurningar um hvort „ósýnilegt“ eftirlit Schengen-samstarfsins þrengi ekki um persónufrelsi einstaklinga. Að land sé eyja skiptir engu í þessu tilliti. Það sem ræður er að við eftirlit á landamærum sé aðgangur að gagnagrunnum sem auðveldi landamæravörðum, lögreglumönnum og tollvörðum, störf þeirra.

Frá því að Ísland varð aðili að Schengen hefur lögregla stofnað til náins samstarfs við Evrópulögregluna, Europol, og nú hefur verið ákveðið að fulltrúi ákæruvaldsins hér, saksóknari, hefji störf hjá Eurojust í Haag. Þar er um að ræða löngu tímabært skref til samstarfs sem auðveldar rannsóknir sakamála.

Það veikti löggæslu sem verður sífellt alþjóðlegri ef stigið yrði skref til baka hér með brotthvarfi úr Schengen. Raunar er allt tal um það flótti frá því verkefni að efla landamæravörslu og löggæslu í flugstöð Leifs Eiríkssonar með raunhæfum aðgerðum.

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra er afdráttarlaus í Morgunblaðinu í dag (11. janúar) þegar hún segir ekki koma til álita að standa utan Schengen „[É]g tel að hagsmunum Íslands sé betur borgið innan Schengen en utan,“ segir ráðherrann og einnig: „[V]ið verðum að vera með öfluga löggæslu og landamæraeftirlit sem ég vil styrkja.“

Undir þessi orð ráðherrans skal tekið.