9.10.2019 16:36

EES-skýrsla kynnt á lokuðum og opnum fundum

Kynningin á EES-skýrslunni heldur áfram. Í dag (9. október) voru tveir kynningarfundir. Annar lokaður í utanríkismálanefnd alþingis, hinn opinn hjá Samtökum eldri sjálfstæðismanna (SES) í Valhöll.

Kynningin á EES-skýrslunni heldur áfram. Í dag (9. október) voru tveir kynningarfundir. Annar lokaður í utanríkismálanefnd alþingis, hinn opinn hjá Samtökum eldri sjálfstæðismanna (SES) í Valhöll.

Fundurinn með utanríkismálanefndinni stóð í fimm stundarfjórðunga. Við skýrsluhöfundarnir höfðum stutta framsögu hvert okkar og svöruðum síðan spurningum nefndarmanna sem höfðu haft skýrsluna til skoðunar í eina viku.

Þarna voru fulltrúar allra flokka á þingi nema Flokks fólksins. Það gleymist gjarnan í umræðunum um skýrsluna að Ólafur Ísleifsson var í þingflokki Flokks fólksins þegar hann flutti beiðnina um skýrsluna en beiðnin var kveikjan að því að boltinn fór af stað.

Mér heyrist talið um að skýrslan sé ófullnægjandi sé á hröðu undanhaldi. Ólafur Ísleifsson kaus að nálgast skýrsluna á þann hátt áður en hann hafði kynnt sér efni hennar, lét sér nægja að dæma hana út frá þeim orðum mínum í aðfararorðum að starfshópurinn hefði ekki sett sér það markmið „að setjast í dómarasæti um kosti og galla EES-samstarfsins heldur draga fram staðreyndir svo að lesendur skýrslu hans gerðu sjálfir upp hug sinn“.

Að gera ágreining vegna þessara orða og láta jafnvel að því liggja að biðja þurfi um aðra skýrslu með vísan til þeirra á engan hljómgrunn. Hver sá sem les skýrsluna sér að þar er dregið saman efni sem gefur lesandanum færi á að kynna sér jafnt það sem vel er gert og hitt sem gera má betur. Ef við þrjú í starfshópnum hefðum gripið til einkunnargjafar hefði athygli beinst að henni en ekki sjálfu efni málsins. Skýrslan er hlutlægt framlag til umræðna um EES-samstarfið.

IMG_2898Frá fundi SES í Valhöll. (Mynd Skúli Hansen.)

Á fjölmennum SES-fundi í Valhöll kom fram mikill áhugi á EES-aðildinni og ekki heyrðist eitt gagnrýnisorð um hana. Þegar fundinum var að ljúka og síðasta tilefni gafst til að leggja orð í belg kvaddi Friðrik Sophusson, fyrrv. varaformaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, sér hljóðs. Inntak orða hans var undrun yfir að enginn hefði vakið máls á þriðja orkupakkanum.

Ég spurði hvort ætlunin væri að hleypa friðsamlegum fundi upp í lok hans. Svo var auðvitað ekki heldur vildi Friðrik vekja athygli fundarmanna á að þrátt fyrir harðar deilur um þriðja orkupakkann og framkvæmd EES-samningsins meðal sjálfstæðismanna í meira en eitt ár sæi enginn ástæðu til að minnast á hann á fundi um EES-samstarfið. Þögnin sagði meira en mörg orð.

Eina gagnrýnin sem fram kom á fundinum var að ekki væri unnt að nálgast skýrsluna prentaða í bókaverslunum. Sjálfum finnst mér það mjög miður því að erfitt er að lesa svo langan texta (301 bls.) á netinu en hér er má nálgast skýrsluna.

Oft er kvartað undan því að almenningur eigi erfitt með að afla sér upplýsinga um EES-samninginn til að taka afstöðu til álitaefna vegna hans. Að ítarleg skýrsla skuli gefin út um efnið án þess að leitað sé hagkvæmustu leiða til að gera hana aðgengilega á prenti fellur að þeirri skoðun okkar skýrsluhöfunda að betur megi standa að framkvæmd ýmissa þátta sem snerta EES hér á heimavelli.

Það er ekki aðeins fjallað um skýrsluna á innlendum vettvangi heldur einnig erlendum eins og sjá má hér.