EES-skýrsla kynnt á EFTA-fundum - Trump á bláþræði
Af tilviljun kveikti ég á sjónvarpinu eftir að
hafa tekið þátt í tveimur fundum hér í Brussel í höfuðstöðvum EFTA og sá yfirheyrsluna í bandarísku þingnefndinni,
Sit í hótelherbergi í Brussel og fylgist með yfirheyrslu í nefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings þar sem Gordon Sondland, sendiherra Bandaríkjanna gagnvart ESB, svarar spurningum þeirra sem rannsaka fyrir opnum tjöldum og öllum heiminum hvort og hvernig Donald Trump Bandaríkjaforseti reyndi að þvinga Volodomíjr Zelenskíj, forseta Úkraínu, til að tilkynna að hann ætlaði að beita sér fyrir sakamálarannsókn sem snerti Hunter Biden, son Joes Bidens, fyrrv. varaforseta Bandaríkjanna, vegna viðskiptasambanda hans í Úkraínu og setu í stjórn orkufyrirtækisins Burisma.
Af tilviljun kveikti ég á sjónvarpinu eftir að hafa tekið þátt í tveimur fundum hér í Brussel í höfuðstöðvum EFTA, annars vegar með ráðgjafanefnd EFTA sem stjórnað var af Halldóri Grönvald, aðstoðarframkvæmdastjóra ASÍ, og hins vegar með þingmannanefnd EFTA sem Smári McCarthy, þingmaður Pírata, stjórnaði. EFTA-skrifstofan bauð mér að koma hingað til að kynna skýrslu okkar í EES-starfshópnum sem utanríkisráðuneytið birti 1. október.
Skýrslan hefur ekki verið þýdd á ensku en fyrstu 15 bls. hennar liggja fyrir á því máli og legg ég þær til grundvallar í orðum mínum og sérstaklega punktana 15 til úrbóta. Undirtektir fundarmanna eru góðar en sérstaka athygli vekur sú niðurstaða okkar að ekki eigi að líta á tilkomu fagstofnana ESB sem ögrun við EES/EFTA-ríkin heldur sem tækifæri sem nýta eigi á skipulegan hátt.
Á fundinum með ráðgjafanefnd EFTA undir stjórn Halldórs Grönvolds. (Mynd: EFTA)
Þegar ég er spurður hvað verði um úrbótatillögur okkar get ég ekki svarað á annan veg en þann að málið sé úr mínum höndum. Umboð starfshópsins hafi fallið niður með útgáfu skýrslunnar. Við höfum kynnt hana á fundi utanríkismálanefndar alþingis og hún hefur verið rædd á alþingi. Undirtektir þar hafi verið góðar. Mestu skipti þó hvernig unnið verði að því að endurskipuleggja EES-starfið innan stjórnarráðsins.
Á fundi með þingmannanefnd EFTA undir stjórn Smára McCarthys. (Mynd: EFTA.)
Merkilegt var að heyra að eftir útgáfu skýrslunnar hefði einn í ráðgjafanefndinni, í henni sitja fulltrúar launþega og atvinnurekenda, fengið tilmæli frá Nei til EU í Noregi um að tala skýrsluna niður og gera hana tortryggilega. Eins og fram kemur í skýrslunni töluðu fulltrúar Nei til EU gegn aðild að EES þegar starfshópurinn hitti þá í Osló.
Sigurbjörn Svavarsson, forystumaður Frjáls lands, birti grein í Morgunblaðinu 28. október 2019 til að hallmæla EES-skýrslunni. Frjálst land eru systursamtök Nei til EU í andstöðunni við EES.
Hjörtur J. Guðmundsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, birti fáeinum dögum eftir útgáfu skýrslunnar viðtal við Ólaf Ísleifsson, þingmann Miðflokksins, sem var allt annars eðlis og neikvæðara í garð skýrslunnar og okkar höfunda hennar en orð Ólafs um skýrsluna á alþingi.
Yfirheyrslunum í bandarísku þingnefndinni þar
sem Gordon Sondland situr fyrir svörum er ekki lokið. Sondland styrkti Trump í
forsetakosningunum og var síðar skipaður sendiherra í þakklætisskyni. Hann ákvað
að ganga fram fyrir skjöldu og skýra frá vitneskju sinni um samskipti Trumps
við Zelenskíjs. Sondland er annt um heiður Bandaríkjanna og orðspor. Hann ber með
sér að vera heiðvirður og trúverðugur. Hann er ekki í efa um að af hálfu Trumps
hafi verið sett skilyrði fyrir því að hann hitti Zelenskíj. Það hafi verið quid
pro quo en Sondland vissi ekki á sínum tíma hvaða greiða Trump vildi að sér
yrði gerður. Trump hangir á bláþræði og vandræði hans endurspeglast í afstöðu repúblíkana í þingnefndinni.