25.2.2023 11:58

Dýrkeypt deila Eflingar

Deilan er með öðrum orðum í algjörum hnút. Í stað þess að einbeita sér að lausn hennar stofnar formaður Eflingar nú til æsingafunda í miðborg Reykjavíkur.

Mál málanna hér er hvernig leysa eigi kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins (SA). Gripið hefur verið til allra lögmæltra leiða til að knýja aðila til að finna lausn en án árangurs til þessa. Að vísu má draga í efa að öllum verkfærunum hafi verið beitt á réttan hátt.

Áratuga reynslu er fyrir því, eða strax frá því að lögskipaður sáttasemjari kom til sögunnar árið 1925, fyrir 98 árum, að treyst er á að viðkomandi verkalýðsfélag beri ábyrgð á atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu sáttasemjara undir eftirliti hans. Nú var brugðið út af þessu og óbilgjarnri forystu Eflingar gefin kostur á að leggja stein í götu atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu með því að liggja á félagatali sínu.

Þetta voru taktísk mistök skipaðs ríkissáttasemjara og þegar þau leiddu til þess að hann tapaði fyrir landsrétti kröfu um lögheimild til að fá félagatalið afhent sagði hann sig frá kjaradeilunni og nýr var settur í hans stað. Sá þurfti ekki nema þrjá sólarhringa til að átta sig á að hann eyddi dýrmætum tíma til einskis með því að kalla deiluaðila til viðræðna.

1398556Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í gulu baráttuvesti (mynd: mbl/Árni Sæberg).

Lesendum þess sem hér á síðunni hefur birst um þessa deilu og viðhorf Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, til manna og málefna, ætti ekki að koma á óvart að hvorki gangi né reki í viðræðum. Markmið formannsins er að nota þá valdastöðu sem hún hefur náð innan verkalýðshreyfingarinnar til að skapa vandræði innan hennar, innan eigin félags og í þjóðlífinu öllu. Hún treystir einkum á stuðning fólks sem þekkir lítið til sögu íslenskrar verkalýðsbaráttu eða félagslegra aðstæðna hér, fólks sem hún matar á upplýsingum og viðhorfum frá arðgerðarsinnum í Bandaríkjum sem telja veikburða verkalýðsfélög þar góð tæki til að vekja athygli á jaðarsjónarmiðum hvað sem líður hag verkafólks.

SA sömdu 3. desember og 12. desember 2022 við félög innan Alþýðusambands Íslands (ASÍ). Með samningunum var meginþorra félagsmanna ASÍ tryggð launahækkun frá 1. nóvember 2022. Stjórn Eflingar hindrar að félagsmenn hennar fái þessar hækkanir. Til að árétta þá skuldbindingu sína að standa við gerða samninga hafa yfir 90% félagsmanna SA samþykkt verkbann á félaga Eflingar frá 1. mars 2023.

Deilan er með öðrum orðum í algjörum hnút. Í stað þess að einbeita sér að lausn hennar stofnar formaður Eflingar nú til æsingafunda í miðborg Reykjavíkur og beinir spjótum sínum að ríkisstjórn og þingmönnum.

Til þess leikbragðs er gripið af athyglisþörf. Baráttuspjöldin staðfesta hverjir standa formanninum næst, þau eru á ensku. Þegar Sólveig Anna efndi til svipaðrar uppákomu fyrir nokkrum árum og beindi spjótum sínum þá einkum að Reykjavíkurborg kallaði hún á aðgerðarsinna frá Kanada sér til aðstoðar – samstarf þeirra endaði með fúkyrðaflaumi eins og jafnan fylgir formanninum auk þess sem aðgerðarsinnanum var mjög misboðið vegna framkomu formannsins í sinn garð.

Settum sáttasemjara ber að leita leiða til að leysa þessa deilu. Hann vissi að hverju hann gekk við aðkomu sína að henni og talaði í upphafi eins og hann teldi að hefðbundnar leiðir til að skera úr ágreiningi dygðu. Honum er annað ljóst núna og er þess beðið af vaxandi óþreyju til hvaða ráða hann grípur. Hver sem þau verða duga þau vonandi til friðsamlegrar lausnar án þess að hleypa upp samkomulaginu sem þegar hefur verið gert í kaupgjaldsmálunum. Um þriðjungur samningstímans er brátt liðinn.