18.9.2018 10:48

Dýr lýsing eykur varðveislugildi

Hér skal ekki vanmetið að sögulegt varðveislugildi sjónvarpsefnis sé haft í huga við gerð þess.

Hátíðarfundur alþingis á Þingvöllum 18. júlí 2018 til að minnast 100 ára afmælis fullveldisins er enn einu sinni í fréttum. Að þessu sinni vegna kostnaðar við fundinn sem nam 86.985.415 kr. um 100% umfram áætlun, stærstu liðir eru 39.146.073 kr. pallar og gangvegir og 22.026.370 kr. lýsing. Í skýringu á vefsíðu alþingis segir:

„Kostnaður var nokkuð umfram áætlun. Er það einkum vegna þess að tekin var ákvörðun um að hafa lýsingu og hljóð af bestu gæðum þar sem atburðurinn var í beinni útsendingu. Einnig var haft í huga að upptaka af fundinum myndi varðveitast til framtíðar sem heimild um sögu þjóðarinnar. Vinna við að bæta og laga göngustíga á Þingvöllum fyrir viðburðinn mun áfram nýtast gestum þjóðgarðsins.“

Rétt er að viðgerð á göngustígum gagnast þeim þúsundum manna sem leggja leið sína um Þingvelli dag hvern. Raunar var ákveðið eftir 50 ára lýðveldisafmælið á Þingvöllum árið 1994 að fjarlægja ekki göngubrýr sem þá voru lagðar yfir Öxará eða rífa upp rafkapla í jörðu. Kom þetta að góðum notum á kristnitökuhátíðinni árið 2000.

1060984Ljóshjálmur settur yfir hátíðarpall - mynd af mbl.ls

Hver sá sem sat og hlustaði á ræður á hátíðarfundinum 18. júlí hlaut að taka eftir miklum ljósabúnaði yfir þingpallinum. Áhersla var greinilega lögð á að myndgæði í sjónvarpi yrðu sem best. Af því sem segir á vefsíðu alþingis má ráða að ákvörðun um að fjárfesta í góðri lýsingu hafi meðal annars verið tekin til að tryggja meira varðveislugildi myndarinnar.

Vissulega má sjá af myndum sem birtar eru í þáttum ríkissjónvarpsins til upprifjunar á tiltölulega nýlegum viðburðum að gæði margra mynda eru hörmuleg miðað við það sem nú þekkist. Hafa þær farið svona illa í geymslu? Voru gæðin svona slæm í upphafi? Skorti góða lýsingu?

Hér skal ekki vanmetið að sögulegt varðveislugildi sjónvarpsefnis sé haft í huga við gerð þess. Miðað við umræður um hátíðarfundinn 18. júlí 2018 má ætla að helst verði birtar myndir frá honum þegar rifjuð verða upp undarleg viðbrögð pírata og einstakra samfylkingarþingmanna vegna ræðu Piu Kjærsgaard á fundinum. Stjórnmálaþróun líðandi stundar er á þann veg að það verður að líkindum talið sæta furðu og til marks um afturhald að mótmæla komu svo framsýns stjórnmálamanns til landsins.

Þá kann að verða gripið til myndbrota af fundinum þegar rifjað verður upp að aðeins um 300 manns voru á Lögbergi og utan hátíðarpalls til að fylgjast með fundinum þótt sumir aðstendur hátíðarinnar hefðu búist við nokkrum þúsundum.