14.6.2022 10:19

Dúsa þingflokksformanna

Hrossakaup um málefni stjórnarandstöðu ráðast meira af hagsmunum þingflokksformanna hennar en hvort unnt sé að tryggja viðunandi málsmeðferð.

Það dregur að þinghléi og þá grípa þingmenn í stjórnarandstöðu til ýmissa ráða í því skyni að minna á sig. Að kvöldi mánudags 13. júní skiptust tveir þingmenn Miðflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bergþór Ólason á að tala hvor í kapp við annan frá klukkan 21.23 til klukkan 00.22 eða samtals í þrjá tíma, 20 ræður. Málið sem þeir völdu til að efna til þessarar uppákomu var fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027, frh. síðari umr.

Skýringuna á þessu uppátæki þingamannanna er líklega að finna í forsíðufrétt Morgunblaðsins í dag (14. júní) um lokadaga þingsins fyrir hlé. Þar segir Andrés Magnússon, fulltrúi ritstjóra, að um tíma hafi verið útlit fyrir að þinglokasamkomulag allra þingflokka nema Miðflokks, sem gert var síðastliðinn fimmtudag, væri í uppnámi, þar sem ekki hefði verið útlit fyrir að öll umsamin þingmannafrumvörp fengju framgang í þinginu, en þau reyndust mjög misflókin í meðförum eða erfið í pólitískum skilningi.

Hvað felst í þessum orðum fréttarinnar? Jú, að „þinglokasamkomulag“ hafi ekki náðst fyrr en samþykkt var að falla frá afgreiðslu einhverra stjórnarfrumvarpa og taka einhver frumvörp þingmanna stjórnarandstöðunnar til afgreiðslu. Miðflokksmenn hafi hins vegar ekki fengið neitt af óskamálum sínum inn í þennan pakka og þess vegna hangi allt á bláþræði eins og sannaðist með málþófinu í gærkvöldi.

Nú verður forvitnilegt að sjá hvaða dúsu Sigmundur Davíð og Bergþór fá svo að þeir verði til friðs og þingmenn komist í sumarleyfi.

MBL0333259Andrés Magnússon ræðir við Hönnu Katrínu Friðriksson, formann þingflokks Viðreisnar, og Helgu Völu Helgadóttur, þingflokksformann Samfylkingarinnar, í Dagmálum (mynd mbl.is).

Sú áferð sem þarna birtist af þingstörfum er ekki falleg. Þingsköpin eru hriplek þegar að því kemur að halda uppi sæmilegum aga. Hrossakaup um málefni stjórnarandstöðu ráðast meira af hagsmunum þingflokksformanna hennar en hvort unnt sé að tryggja viðunandi málsmeðferð.

Þingmannamál liggja óafgreidd í nefndum þangað til kemur að gerð „þinglokasamkomulags“. Þá er dustað rykið af einhverjum málum og þess krafist að þau fái flýtimeðferð.

Þingmenn stjórnarandstöðu sem allan veturinn hafa staðið í ströngu við að kalla eftir áliti sérfræðinga um stórt og smátt til að tryggja „faglega“ meðferð þingmála standa nú í ræðustól og minna á sjálfstæði þingmanna og þings, það þurfi sko ekki að fá álit sérfræðinga ráðuneyta eða hlusta á kerfiskarla og kerlingar. Þingmenn eigi að ráða!

Af frétt Morgunblaðsins má ráða að formenn tveggja þingflokka stjórnarandstöðunnar hafi gætt eigin hagsmuna við gerð „þinglokasamkomulagsins“:

„Samið var um að taka gjafsóknafrumvarp Helgu Völu Helgadóttur í Samfylkingu til meðferðar, þó engu sé lofað um afgreiðslu þess. Þrátt fyrir að frumvarp Hönnu Katrínar Friðriksson um hjónaskilnað án undanfara sé lagatæknilega flókið, nýtur það víðtæks stuðnings í þinginu og mun stjórnin greiða götu þess.“

Það er síður en svo nokkur skylda að gera „þinglokasamkomulag“ um hálfköruð mál stjórnarandstöðunnar. Þessi ósiður er blettur á vinnubrögðum þingmanna.