2.8.2017 10:08

Dunkirk

Umræðurnar á fyrrgreindri ráðstefnu rifjuðust upp fyrir mér þegar ég sá kvikmyndina Dunkirk eftir Christopher Noland sem nú er sýnd í kvikmyndahúsum hér. 

Nokkur ár eru liðin frá því að ég sat ráðstefnu um öryggismál þar sem fjallað var um hernað nú á tímum og hve miklu skipti að mannfall væri sem minnst og hraðinn sem mestur til að ekki tækist að hræða þjóðir sem ættu menn á vígvellinum frá því að þeir væru sendir þangað. Þetta væri brýnna nú en nokkru sinni fyrr vegna þess hve miðlun frétta væri ör og mikil og auðvelt að sýna öllum heiminum hörmungar styrjalda um leið og þær yrðu.

Loftárásir með flugvélum og langdrægum stýriflaugum setja mikinn svip á hernað síðari tíma. Frá því að ráðist var inn í Írak fyrir tæpum 15 árum hefur landhernaður af hálfu Vesturlanda tekið á sig þá mynd að sérþjálfaðar sveitir eru sendar til skyndiaðgerða eða stuðningslið er sent á landi undir merkjum ráðgjafar og þjálfunar eins og verið hefur í Írak undanfarið þegar skipulega hefur verið staðið að því að hrekja íslamska öfgamenn frá Mósúl eða öðrum stöðum sem þeir hafa lagt undir sig.

Umræðurnar á fyrrgreindri ráðstefnu rifjuðust upp fyrir mér þegar ég sá kvikmyndina Dunkirk eftir Christopher Noland sem nú er sýnd í kvikmyndahúsum hér. 

Í myndinni er sögð saga hernaðaraðgerðar í Dunkirk á strönd Frakklands við Ermarsund í síðari heimsstyrjöldinni. Þar börðust Bretar og Frakkar við Þjóðverja undir stjórn Hitlers. Orrustan um Dunkirk snerist um að verja og koma á brott þaðan yfir til Englands um 400.000 breskum og annarra þjóða hermönnum í Evrópu dagana 26. maí til 4. júní 1940. Alls tókst að flytja um 340.000 hermenn yfir sundið.

Kvikmyndin hefur fengið góða dóma. Það sem hún sýnir staðfestir orð eins ræðumanns á fyrrgreindri ráðstefnu að hefði nútíma fjölmiðlun verið við lýði árið 1940 og atburðum þessum lýst í beinni útsendingu hefði stríðið líklega endað þarna með sigri nasista. Ekki hefði tekist að virkja þjóðir til nægilega öflugrar andstöðu við þá eftir þennan harmleik.

Bresku hermennirnir sem sneru heim yfir Ermarsundið héldu að þeir yrðu fyrir gagnrýni og áreiti þegar þeir færu út á meðal almennings eftir hrakfarirnar. Winston Churchill sem hafði vænst að fá þrjátíu til fjörutíu þúsund menn yfir sundið sneri björgun 340.000 manna upp í sigur og flutti eina af sínum frægu þingræðum um að barist yrði þar til yfir lyki.

Í kvikmyndinni er þessu öllu komið til skila á snilldarlegan hátt.