9.9.2022 8:55

Drottningin er látin

Í raun fyllir enginn skarð Elísabetar II. Það er svo stórt. Hún var ekki aðeins þjóðhöfðingi Breta heldur einnig 14 annarra landa.

Það dugar að segja: Drottningin er látin; og allir vita hver kvaddi. Elísabet II. Bretadrottning, 96 ára, fékk hægt andlát í faðmi fjölskyldu sinnar í Balmoral-kastala í Skotlandi síðdegis fimmtudaginn 8. september 2022. Karl, prins af Wales, sonur Elísabetar, tók við krúnunni af móður sinni og er Karl III.

Queen-elizabeth-11-graphic-for-radio-stub

Mikil umskipti verða nú eftir 70 ára feril drottningarinnar. Winston Churchill, f. 1874, var forsætisráðherra þegar Elísabet varð drottning. Hún fylgdist allt frá upphafi náið með framvindu þjóðmála og þjóðlífinu. Má orða það svo að hún hafi sameinað af eigin kynnum þekkingu og reynslu sem spannaði 150 ár.

Mánudaginn 5. september 2022 afhenti Boris Johnson henni lausnarbeiðni sína sem forsætisráðherra og þriðjudaginn 6. september tilnefndi hún  Liz Truss í hans stað.

Í raun fyllir enginn skarð Elísabetar II. Það er svo stórt. Hún var ekki aðeins þjóðhöfðingi Breta heldur einnig 14 annarra landa.

Nú tekur við 10 daga sorgarferli í Bretlandi sem er þaulskipulagt og mun ekki síður ná athygli alls heimsins en líf drottningarinnar.