7.8.2018 11:49

Drífa í ASÍ-forsetaframboð

 

Nú er spurning hvort einhver býður sig fram á vettvangi ASÍ með upptöku evrunnar að leiðarljósi.

Hér var á dögunum vakið máls á því að líta ætti á orð Drífu Snædal verkalýðsforingja með þeim augum að hún ætlaði að bjóða sig fram til forseta í Alþýðusambandi Íslands. Hún tilkynnti framboð sitt opinberlega í dag (7. ágúst) en ASÍ-þingið verður í lok október.

Drífa sendi frá sér framboðsyfirlýsingu og þar segir meðal annars:

„Síðustu áratugi hefur hallað undan fæti í samfélaginu hér heima og heiminum öllum.“

Img_2185Þarna er sérkennilega að orði komist en í samræmi við það að þeir sem eru í forystu íslenskrar verkalýðshreyfingar virðast með öllu fráhverfir þeirri hugsun að með þátttöku þeirra hafi orðið mestu félagslegar og efnalegar framfarir í sögu þjóðarinnar, einmitt síðustu áratugi. Á árunum frá 2014 hefur kaupmáttur til dæmis aukist um 30% svo að nærtækt dæmi sé tekið. Sé þetta dæmi nefnt leggjast margir á eitt að gera sem minnst úr gildi þess fyrir almenna launþega!

Fyrir rúmum áratug var upptaka evru helsta baráttumálið forystumanna ASÍ.

Drífa Snædal minnist ekki einu orði á samskipti út á við eða evruna. Á hinn bóginn vekur athygli að á FB-síðu sinni birtir Drífa framboðsyfirlýsingu sína bæði á íslensku og ensku sem segir sitt um  fjölgun félagsmanna ASÍ með annað móðurmál en íslensku.

Nú er spurning hvort einhver býður sig fram á vettvangi ASÍ með upptöku evrunnar að leiðarljósi. Á árum áður voru forystumenn ASÍ og Samfylkingarinnar samstiga í evru-baráttunni. Kæmi evru-frambjóðandi fram innan ASÍ að þessu sinni nyti hann stuðnings forystumanna Viðreisnar. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður flokksins, segir í dag í Fréttablaðinu:

„Það er ekki sanngjarnt að almenningur sitji eftir með krónuna og kostnaðinn sem henni fylgir á meðan tiltekin fyrirtæki tryggja sig með því að gera upp í erlendri mynt og hafa aðgang að ódýru erlendu fjármagni. Krónan hefur reynst okkur dýrkeypt spaug. Horfumst í augu við það.“

Með krónuna að vopni hefur kaupmáttur íslensks almennings vaxið meira en launþega í nokkru evru-landanna.

Að segja að hallað hafi undan fæti í íslensku samfélagi og að halda því fram að íslenska krónan sé „dýrkeypt spaug“ er í ætt við þær upplýsingafalsanir sem barist er gegn á alþjóðavettvangi með þeim rökum að þær veiki traust á lýðræðislegum umræðum og baráttu.