4.11.2020 9:16

Dramatísk spenna í Bandaríkjunum

Trump vegnaði mun betur en spáð var. Enginn veit enn hver sigrar þótt Joe Biden hafi verið talinn næsta öruggur með sigur fyrir kjördag.

Við höfum oft heyrt undanfarna mánuði þá sem ræða farsóttina skýra fyrir okkur að hitt eða þetta komi þeim ekki á óvart. Þeir hafi gefið til kynna að mál gætu þróast á þennan veg eða annan. Ummælunum er ætlað að róa okkur á fordæmalausum tímum. Við séum ekki stödd vegalaus á ókunnum stað heldur sé leið út úr vandanum.

Lýsing af þessu tagi sækir á hugann að morgni miðvikudags 4. nóvember þegar fréttir berast frá Bandaríkjunum og ekki liggur fyrir hver verður næsti forseti þeirra eftir kosningarnar 3. nóvember. Snemma í morgun mátti heyra menn segja að staðan væri eins og þeir eða aðrir kunnáttumenn hefðu sagt, úrslitin yrðu ekki skýr fyrr en eftir nokkra daga þar sem þau kynnu að ráðast af utankjörstaða-atkvæðum.

Us-elections-voting-750Florida-háskóli segir að 97 milljón atkvæði hafi verið greidd utan kjörstaðar. Donald Trump tók snemma að gera þessi atkvæði tortryggileg og um tíma var jafnvel talið að hann mundi nota póstþjónustuna til að þjóna hagsmunum sínum eins og hann skýrði þá.

Um klukkan 07.30 að íslenskum tíma (02.30 í Washington) efndi Trump til blaðamannafundar í Hvíta húsinu. Lúðrar voru þeyttir þegar hann gekk fram fyrir fánaborg í salnum þar sem um 100 manns sátu og fögnuðu honum með hrifningarhrópum. Boðskapur Trumps var þessi:

„Við búum okkur undir að vinna þessar kosningar. Í hreinskilni sagt, við unnum þessar kosningar.“

Hann gaf til kynna að þjóðin stæði frammi fyrir „meiriháttar svindli“ án þess að skýra orð sín frekar. Og hann sagði:

„"We'll be going to the U.S. Supreme Court. We want all voting to stop. We don't want them to find any ballots at 4 a.m. in the morning and add them to the list."

Hann vill með öðrum orðum stöðva talningu atkvæða og boðar að hann láti reyna á þann vilja sinn fyrir hæstarétti. Þegar þarna var komið hættu kosningaskýrendur að tala á þann veg að þeir hefðu séð fyrir hvað kynni gerast. Stjórnlagafræðingar voru kallaðir á vettvang sem sögðu umyrðalaust að forsetinn hefði nú leitt umræðurnar inn á „fordæmalausan“ vettvang. Forsetinn hefði ekki heimild til að stöðva talningu atkvæða og hann gæti ekki leitað milliliðalaust til hæstaréttar.

Demókratar birtu strax yfirlýsingu um að lögfræðingalið þeirra ætlaði að berjast sigurs gegn öllum tilraunum Trumps til að eyðileggja atkvæði með því að hindra að þau yrðu talin.

Þetta er sem sagt staðan núna: Úrslit kosninganna eru óljós, Trump vegnaði mun betur en spáð var. Enginn veit enn hver sigrar þótt Joe Biden hafi verið talinn næsta öruggur með sigur fyrir kjördag. Bandarísk stjórnmál hafa tekið á sig nýja mynd.