13.11.2023 9:56

Dóra Björt vill ritskoðun

Ef Dóra Björt sæti ekki í borgarstjórn Reykjavíkur og hefði ekki boðað ritskoðunarstefnu sína sem stjórnmálamaður í Pírata-flokknum hefði enginn veitt orðum hennar athygli.

Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, fékk vettvang á Sprengisandi Kristjáns Kristjánssonar á Bylgjunni sunnudaginn 12. nóvember til að árétta þá skoðun sína að ákvarðanir um fjárstuðning ríkisins við fjölmiðla ættu að taka mið af efninu sem birtist í miðlunum.

Hér í þessum texta verður stuðst við það sem birtist á visir.is sem er netmiðill Bylgjunnar.

Í viðtalinu sagðist Dóra eiga bakgrunn í Noregi og vera innblásin af lýðræðishugmyndum í norsku samfélagi og styrkjakerfinu þar. Ekki er að sjá að hún hafi skýrt hvernig Norðmenn standi að því að veita fjölmiðlastyrki með vísan til þess efnis sem í fjölmiðlum er eða hvaða ritskoðunarkerfi þeir hafi komið á til að umsóknir um styrki fullnægi kröfum ritskoðenda.

Download_1699869340352

„Það væri hægt að finna leiðir til að tryggja að fagleg rök séu að baki,“ er haft eftir henni. Hún boðaði á hinn bóginn engin fagleg sjónarmið í ræðu sinni í borgarstjórn á dögunum heldur krafðist hún þess að efnistök yrðu ekki með þeim hætti að kæmi henni illa sem borgarfulltrúa sem stefnir rekstri borgarinnar í hættu.

Í fréttinni á visir.is segir: „Dóra Björt sagði túlkun Morgunblaðsins á fjármálum borgarinnar ekki rétta. Staðan væri ekki eins slæm og væri oft dregin þar upp og Morgunblaðið birti í raun áróður.“

Það er einmitt af þessum sökum sem hún vill leggja stein í götu Morgunblaðsins. Trúir því einhver að norskum stjórnmálamanni sem er annt um virðingu sína tali á þennan veg? Að beita eigi opinberu valdi til að mismuna við opinberar styrkveitingar eftir því hvort skoðanir miðilsins séu stjórnmálamanni þóknanlegar?

Þá segir á visir.is: Spurð hvort hún teldi Morgunblaðið ekki eiga að fá rekstrarstyrk sagðist Dóra Björt ekki vera á þeirri skoðun. Hún sagði fjölmiðilinn stunda áróður en að það væri ekki hennar hlutverk sem stjórnmálamanns að vera á þeirri skoðun hvort þau eigi að fá styrk.“

Þarna skorast hún undan með því að vísa til þess að hún er stjórnmálamaður. Þetta er lítilmannlegt því að það er einmitt stjórnmálamanna að bera ábyrgð á þeim reglum sem fylgt er við úthlutun þótt „fagmönnum“ sé falið að vinna verkið.

Um hlutverk stjórnmálamanna hafði Dóra Björt þetta að segja:

„Ég myndi segja það að við ættum að búa þannig um hnútana að það séu fagleg gagnsæ sjónarmið sem ráði för og að það séu faglegir aðilar sem komi að þessu mati.“

Ef Dóra Björt sæti ekki í borgarstjórn Reykjavíkur og hefði ekki boðað ritskoðunarstefnu sína sem stjórnmálamaður í Pírata-flokknum hefði enginn veitt orðum hennar athygli. Á þau hefði verið litið sem öfgar sem ekki þyrfti að ræða. Hún er virkur stjórnmálamaður, trúnaðarmaður stjórnmálaflokks og krefst ritskoðunar sem slík. Um það verður að ræða til varnar lýðræðinu.