3.6.2019 13:54

Donald Trump hjá Elísabetu II.

Donald Trump lét borgarstjórann fá það óþvegið við komuna til London – sýndi drottningunni meiri virðingu en síðast þegar þau hittust.

Innan breska Íhaldsflokksins ákváðu menn að Theresa May yrði forsætisráðherra með fullu umboði dagana þrjá sem Donald Trump Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í London. May segir formlega af sér föstudaginn 7. júní en situr áfram sem starfandi forsætisráðherra þar til íhaldsmenn hafa kjörið eftirmann hennar.

Þegar Trump var á ferð í Japan í fyrri viku sendu starfsmenn hans í Hvíta húsinu beiðni til varnarmálaráðuneytisins um að tundurspilli sem ber nafnið John McCain yrði ekki lagt þannig að hann bæri fyrir augu forsetans. Liðsstjóri hans í Hvíta húsinu telur að eðlilegt hafi verið að gera ráðstafanir til að tryggja að forsetinn héldi jafnaðargeði sínu. Varnarmálaráðuneytið hefur formlega mótmælt þessari tilraun til flokkspólitískra afskipta af Bandaríkjaher.

Augljóst er að verkamannaflokksmanninum Sadiq Khan, borgarstjóra í London, tókst að espa forsetann með ummælum sínum um að forsetinn væri ekki velkominn til bresku höfuðborgarinnar.

Https-_cdn.cnn.com_cnnnext_dam_assets_190603124553-20-trump-uk-0603Elísabet  II. tekur á móti Donald Trump við Buckingham-höll.

Í sama mund og flugvél forsetans lenti á Stansted flugvelli við London birti Trump ofsa-skammir um borgarstjórann á Twitter. Þar sagði hann allt benda til þess að Sadiq Khan væri ömurlegur borgarstjóri í London og hann hefði verið heimskulega viðbjóðslegur í garð Bandaríkjaforseta sem kæmi sem gestur til borgarinnar, forseta allra mikilvægasta bandamanns Breta.

Trump sagði borgarstjórann „lúða“, honum væri nær vinna gegn glæpum í London í stað þess að ráðast á sig. Forsetinn sagði Khan minna sig á „forheimskan og óhæfan borgarstjóra í New York [Bill] de Basio“ sá væri þó munurinn að Khan væri „helmingi lægri “ en Basio. Sagt er að Sadiq Khan sé um 165 cm hár.

Um helgina birti Khan grein í blaðinu The Observer og skipaði Trump á bás með Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, Marine Le Pen, leiðtoga Þjóðarhreyfingarinnar í Frakklandi. Sagði hann þau nota sama líkingamál og fasistar gerðu á 20. öld til að afla sér fylgis.

Trump og Khan hafa áður átt í deilum. Trump gagnrýndi til dæmis árið 2017 hvernig borgarstjórinn brást við hryðjuverki í London.

Áður en Trump lenti í London hafði hann rætt við Murdoch-blöðin The Sun og The Sunday Times og látið orð falla um hver ætti að taka við af Theresu May sem forsætisráðherra og hvernig Bretar ættu að standa að brexit-viðræðunum við ESB.

Í hádeginu var Trump gestur Elísabetar II. í Buckingham-höll. Fréttamenn tóku fram að sjónvarpsmyndir sýndu að Trump sýndi drottningu meiri virðingu nú en þegar hann var gestur hennar síðast og gekk fram úr henni þegar þau heilsuðu heiðursverði.