Donald kemur til Davos
Forsætisráðherra hafa ákveðið á óvissutímanum sem nú er að setja ESB-aðildarmálið á dagskrá íslenskra stjórnmála. Það er vanhugsað og á skjön við þjóðarhagsmuni að stíga slíkt skref.
Ræðu Donalds Trump Bandaríkjaforseta á alþjóðaefnahagsráðastefnunni í Davos í Sviss í dag, miðvikudaginn 21. janúar, er beðið með eftirvæntingu. Því er spáð að hann muni setja salt í sárið sem myndast hefur innan NATO vegna ásælni hans í Grænland. Aðrir segja að hann boði snjalla lausn á ágreiningi við Evrópuríkin vegna Grænlands.
Það hefur verið áhugavert að fylgjast með breytingunni á deilunni um Grænland á einni viku eftir örlagafund fulltrúa danskra og bandarískra stjórnvalda í Washington miðvikudaginn 14. janúar. Á sama tíma og fundað var í Washington efndi danski varnarmálaráðherrann til blaðamannafundar í Kaupmannahöfn og kynnti aukna hervæðingu á Grænlandi í samvinnu við evrópska NATO-bandamenn. Landhelgisgæsla Íslands sendi meira að segja tvo fulltrúa til Nuuk.
Þessi léttvæga hernaðarlega ráðstöfun leiddi til þess að Trump ákvað að leggja refsitolla á átta Evrópuríki (ekki Ísland) sem komu við sögu. Þar með hætti Grænlandsdeilan að vera þriggja þjóða mál: Grænlendinga, Dana og Bandaríkjamanna og varð að stóru ágreiningsmáli milli Bandaríkjastjórnar og ESB.
Ursula von der Leyen flytur ræðu í Davos 20. janúar 2026.
Þetta birtist greinilega í ræðu sem Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, flutti í Davos þriðjudaginn 20. janúar. Hún dró skil á milli Bandaríkjastjórnar og ESB. Evrópubúar vildu vináttu við Bandaríkin en þeir styddu einnig sjálfsákvörðunarrétt Dana og Grænlendinga. Um hann yrði ekki samið og það væru mistök að leggja refsitolla á gamla bandamenn.
Evrópuríki vildu auka sjálfstæði sitt gagnvart Bandaríkjunum á sviði varna og viðskipta. Hún nefndi að ESB hefði gert viðskiptasamning við lönd Suður-Ameríku, Mercosur-samninginn, og svipaðir samningar yrðu gerðir í Asíu.
„ESB og Bandaríkin gerðu viðskiptasamning í júlí síðastliðnum. Og í stjórnmálum eins og í viðskiptum gildir: samningur er samningur. Og þegar vinir takast í hendur verður það að hafa inntak,“ sagði forseti framkvæmdastjórnarinnar. Hún minnti Trump einfaldlega á að orð ættu að standa.
Svartara verður það varla á milli bandamanna. Enginn danskur ráðherra er í Davos. Viðskiptaráðherrann ætlaði að fara en hætti við eftir samráð við forystumenn í viðskiptalífinu auk þess sem það kostaði af mikið.
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segir í Morgunblaðinu í dag að sér hafi verið boðið til Davos í ár eins og í fyrra. „Ég fæ mikið af boðum á alþjóðavettvangi og maður þarf að velja og hafna,“ segir ráðherrann og fer hvergi.
Í blaðinu segist hún hafa ákveðið á óvissutímanum sem nú er að setja ESB-aðildarmálið á dagskrá íslenskra stjórnmála. Það er vanhugsað og á skjön við þjóðarhagsmuni að stíga slíkt skref.
Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, miðlaði af reynslu sinni og þekkingu í Silfri ríkissjónvarpsins mánudaginn 19. janúar. Boðskapur hans var á þann veg að íslensk stjórnvöld ættu frekar að efla hagsmunagæslu í Washington núna en í Brussel, þaðan fengist ekkert skjól. Þetta er rökrétt afstaða í ljósi geópólitískrar og strategískrar þróunar hvað sem líður Donald Trump.