26.12.2021 10:48

Dómari vanhæfur vegna „like“

Dómarinn Søren Holm Seerup baðst síðar afsökunar og sagði með því að setja „like“ við þessi ummæli lýsti hann ekki afstöðu til Messerschmidts.

Danski þjóðarflokkurinn (DF) hefur aldrei átt ráðherra í ríkisstjórn en oftar en einu sinni veitt borgaralegum stjórnum stuðning. Pia Kjærsgaard sem varð þjóðkunn hér á landi sumarið 2018 leiddi flokkinn á sigurgöngu hans en hvarf úr formannssætinu eftir að hafa verið forseti danska þingsins. Síðan hefur fylgið stórminnkað og nú er tekist á um nýjan flokksformann.

Hingað kom Pia í boði Steingríms J. Sigfússonar, forseta alþingis, á hátíðarfund á Þingvöllum vegna 100 ára afmælis sambandslaganna sem tryggðu Íslendingum fullveldi. Píratar gátu ekki setið sama fund og Pia og Helga Vala Helgadóttir, núv. þingflokksformaður Samfylkingarinnar, laumaðist út af þingpallinum á Þingvöllum þegar Piu var gefið orðið. Helga Vala lét þó ljósmyndara vita af sér í von um að stela senuninni frá Piu.

Danskir jafnaðarmenn undir forystu Mette Frederiksen forsætisráðherra stálu mörgu af málum DF til að auka vinsældir sínar, meðal annars hluta stefnunnar í útlendingamálum sem gerði Piu svo vinsæla.

Morten-messerschmidt-i-oestre-landsretMorten Messerschmidt.

Einn þeirra sem stefnir nú á formennsku í DF er þingmaðurinn og varaformaðurinn Morten Messerschmidt (41 árs). Hann sat á sínum tíma fyrir flokkinn á ESB-þinginu. Árum saman hefur hann setið undir ásökunum um að hafa árið 2015 notað ESB-styrk til stjórnmálastarfsemi á rangan hátt.

Málið fór fyrir dómstóla og 13. ágúst 2021 féll einróma dómur þriggja dómara í Lyngby Byret á þann veg að Messerschmidt skyldi sæta sex mánaða skilorðsbundinni fangelsisvist fyrir skjalafals og ranga meðferð á ESB-fjármunum.

Þingmaðurinn áfrýjaði málinu og 22. desember 2021 komst Østre Landsret að þeirri niðurstöðu að formaður fjölskipaða dómsins í héraði hefði verið vanhæfur og var málið sent aftur heim í hérað.

Ástæðan fyrir vanhæfi héraðsdómarans Sørens Holms Seerups var að verjendur Messerschmidts bentu á mörg dæmi þess að hann hefði árum saman sett „like“ á Facebook við færslur og athugasemdir þar sem Messerschmidt og DF sættu gagnrýni. Meðal annars við færslu eftir Søren Pind, fyrrverandi ráðherra Venstre-flokksins, sem sagði eftir að héraðsdómurinn féll:

„Sæmd skiptir ekki lengur máli í stjórnmálum ... Messerschmidt heldur áfram sem varaformaður DF þrátt fyrir að vera dæmdur í fangelsi.“

Dómarinn Søren Holm Seerup baðst síðar afsökunar og sagði með því að setja „like“ við þessi ummæli lýsti hann ekki afstöðu til Messerschmidts.

Þetta mál er áfram til umræðu í dönskum stjórnmálum og meðferðar innan réttarkerfisins þar sem Messerschmidt hefur skotið því til sérstakrar kærunefndar vegna starfshátta dómara.

Vegna þess hve danskt réttarfar setur mikinn svip á íslensk réttarfarslög er rík ástæða til að hafa auga með framvindu alls þessa hér. Þá skiptir hitt ekki síður máli að átta sig á hver verða örlög DF og hvort dönskum jafnaðarmönnum tekst að jarða flokkinn með því að gera málstað hans í útlendingamálum að sínum. Þeim hefur þannig tekist að stórminnka umsóknir hælisleitenda í Danmörku, svo mjög að sérstaka athygli vekur á Schengen-svæðinu.