24.1.2018 13:34

Dómarabandalag Pírata og Samfylkingar

Dómarabandalag Pírata og Samfylkingar var kynnt til sögunnar 23. janúar og sama dag lagði fréttastofa ríkisútvarpsins blessun sína yfir markmið þess.

Nú er ljóst að myndast hefur bandalag milli Helgu Völu Helgadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar alþingis, og Jóns Þórs Ólafssonar, þingmanns Pírata, um að tefja og þvæla rannsókn nefndarinnar á skipan landsréttardómara í von um að halda lífi í umræðum sem leiði til þess að þingmenn vinstri grænna (VG) samþykki að Sigríður Á. Andersen hverfi úr embætti dómsmálaráðherra. 

Þetta bandalag var kynnt til stjórnmálasögunnar í gær og fréttastofa ríkisútvarpsins lagði blessun sína yfir það í Kastljósi að kvöldi þriðjudags 23. janúar. Þar hélt stjórnandi viðræðna, Einar Þorsteinsson, þannig á málum að Helga Vala fékk að koma sjónarmiði sínu á framfæri en sífellt var orðið tekið af Birgi Ármannssyni, þingflokksformanni Sjálfstæðismanna.

Myndin er af visindavef,is og sýnir fundarsal alþingis.

Eftir Kastljósið birti Björn Valur Gíslason, fyrrv. alþingismaður og fyrrv. varaformaður VG, pistil á vefsíðu sinni þar sem gaf til kynna að „plott“ Helgu Völu og Jóns Þórs mundi duga til að draga allan mátt úr þingmönnum VG, þeir yrðu líklega teknir á beinið á næsta flokksráðsfundi. Hvort Björn Valur talar fyrir aðra en sjálfan sig kemur í ljós, stjarna hans skín ekki skært á himni VG. 

Þingnefndir hafa almennt ekki mál lengur á dagskrá sinni en meirihluti þeirra samþykkir – í nefndunum er unnt að flytja tillögu um að mál séu einfaldlega tekin af dagskrá þeirra. Þá kjósa nefndir einnig sjálfar formann sinn. Á örfáum vikum hefur Helga Vala Helgadóttir sýnt að hún veldur ekki formennsku í þingnefnd.  Meira að segja Samfylkingarformaðurinn fyrrverandi, Össur Skarphéðinsson, treystir Helgu Völu ekki til að ljúka málinu í nefndinni heldur hvetur Jón Þór Ólafsson til að gera það.  

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður alþingis, óskaði eftir gögnum vegna landsréttardómaramálsins frá dómsmálaráðherra til að búa sig undir fund nefndarinnar sem Helga Vala stýrir. Tryggvi nefnir jafnframt á mbl.is þriðjudaginn 23. janúar að sú starfsregla gildi að umboðsmaður fjalli ekki um sömu atriði og alþingi athugi sjálft, hann muni ekkert frekar huga að þessu máli nema eftir að nefndin hafi afmarkað verkefni sitt. Þetta hafi hann m.a. sagt þeim sem kvörtuðu til hans úr hópi umsækjenda um starf dómara við landsrétt, hann fjalli ekki um þau atriði sem komi til umfjöllunar hjá alþingi. 

Eins og minnt var á hér í gær kallaði sjálfur forseti Íslands eftir rannsókn alþingis á landsréttardómaramálinu. Fékk hann skýrslu um það og ritaði undir skipunarbréf dómaranna. 

Helga Vala vill kannski halda málinu hjá sér til að hindra athugun umboðsmanns alþingis? Álit hans getur leitt til ógildingar á ákvörðunum ráðherra eins og minnt var á í frétt Fréttablaðsins í dag (24. janúar) á bls. 4 undir fyrirsögninni: Tók fimm ár að birta auglýsingu. 

Þar segir að mánudaginn 22. janúar hafi birst auglýsing í Stjórnartíðindum um ákvörðun setts umhverfisráðherra vegna staðfestingar á breytingum á svæðis- og aðalskipulagi höfuðborgarsvæðisins. Ákvörðunin hafi verið tekin fyrir tæpum fimm árum. Aðdragandi málsins sé þó enn lengri og varði breytingu á skipulaginu frá 20. desember 2002. Tillaga um breytinguna hafi borist umhverfisráðuneytinu frá Skipulagsstofnun 2009. Þáverandi umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, staðfesti  málið árið 2010. Síðar gerði umboðsmaður Alþingis ráðherrann afturreka þar sem Svandís hafði komið að málinu á sveitarstjórnarstigi. Guðbjartur Hannesson var þá settur ráðherra og staðfesti breytinguna 1. mars 2013. Fimmtán árum eftir að ákvörðunin var tekin á sveitarstjórnarstigi var hún auglýst, segir í Fréttablaðinu. 

Minnist þess nokkur að krafist hafi verið afsagnar Svandísar Svavarsdóttur vegna vanhæfis hennar við afgreiðslu þessa máls? Þarna braut Svandís sem ráðherra þó stjórnsýslulög en túlkaði ekki matsreglu í lögunum á annan hátt en hæstiréttur vill að gert sé. 

Ákvörðunin um skipulagið var ógildanleg, það verður ekki sagt um skipan dómara í landsrétt. Alþingi tók ákvörðun um það efni á réttan hátt þótt nú sé reynt, meðal annars af þingmönnum, að klína ákvörðuninni alfarið á ráðherrann í von um að Svandís og aðrir VG-þingmenn krefjist afsagnar dómsmálaráðherra. Lágkúrunni í nafni Pírata eru engin takmörk sett og Samfylkingin tekur þátt í leiknum.