Djörfung á DR – þöggun á RÚV
Ábyrgðin á því að andrúmsloftið sé hreinsað á ríkisútvarpinu hvílir að lokum á ráðherranum Loga Einarssyni og Samfylkingunni. Til þingflokks hennar hefur Þórður Snær Júlíusson hins vegar ráðist.
Danska ríkisútvarpið, DR, varð fyrir miklu áfalli vegna heimildarmyndar undir heitinu Grønlands hvide guld sem frumsýnd var fyrir um tveimur vikum. Hún hefur nú verið afmáð af öllum rásum DR. Þá var aðalritstjóri DR, Thomas Falbe, rekinn á staðnum miðvikudaginn 19. febrúar.
DR sýndi myndina þótt margir ráðgjafar við gerð hennar gagnrýndu ýmislegt sem fullyrt var í textanum, enda væri ekki fótur fyrir því. Var því haldið fram að Danir hefðu notið góðs af 400 milljarða danskra króna (á núvirði) veltu af vinnslu krýólíts úr námum á Grænlandi. Eftir að myndin var sýnd drógu margir af fremstu hagfræðingum Dana þessa tölu og útreikninga að baki henni í efa.
Þá var valið á frumsýningardegi einnig gagnrýnt þar sem þingkosningar væru á næsta leiti á Grænlandi. Myndin kynni að hafa áhrif á kjósendur. Sjálfstæði Grænlands ræðst af því hvort þjóðin geti staðið fjárhagslega á eigin fótum.
Sandy French, fréttastjóri DR, sagðist „skammast sín“ vegna málsins, það væri dapurlegt að sýnd hefði verið heimildarmynd sem ekki stæðist þær kröfur sem vænta mátti. Þá sagðist hún einnig skammast sín fyrir meðferð málsins hjá DR.
Um sama leyti og DR sendi frá sér tilkynningu um afturköllun myndarinnar og brottrekstur aðalritstjórans var afriti af myndinni dreift á YouTube af einhverjum sem kallar sig DR Online Arkiv, sem vekur grunsemdir um að einhver tengdur DR standi þar að baki. Nafnið eitt vekur ekki þessar grundsemdir heldur er þar einnig að finna lógó sem birtist á vídeóþjónustu DR.
DR segir við Berlingske 20. febrúar að engin tengsl séu á milli ríkisútvarpsins og DR Online Arkiv. Það verði kannað hvort unnt sé að loka þessum prófíl á YouTube.
Kryolít-náma á suðvestur Grænlandi.
Þegar lesið er um þessar hremmingar DR og skjót viðbrögð við þeim til að viðhalda trausti og trúverðugleika ríkisútvarpsins verður enn undarlegra en áður að sjá íslenska ríkisútvarpið vinna markvisst að því að grafa undan eigin trausti og trúverðugleika með varðstöðu um undanbrögð sem rekja má allt aftur til nóvember 2019 þegar gerð var atlaga að útgerðarfyrirtækinu Samherja í þættinum Kveik.
Um einn þátt þess máls alls er nú skrifað dag eftir dag í Morgunblaðið með vísan til samtals sem Stefán Einar Stefánsson tók við Pál Steingrímsson skipstjóra í hlaðvarpinu Spursmál á dögunum.
Lýsingarnar á því sem á að hafa gerst undir forsjá starfsmanna ríkisútvarpsins og í höfuðstöðvum þess í Efstaleiti eru á þann veg að ekki á að líða neinum stjórnendum sem trúað er fyrir þessari opinberu stofnun að ætla að kæfa umræður um málið með þöggun. Er þeim sama um trúverðugleika og virðingu stofnunar sem kostar skattgreiðendur árlega um sjö milljarða króna? Á að láta hana verða endanlega marklausa vegna varðstöðu um forkastanleg vinnubrögð?
Ábyrgðin á því að andrúmsloftið sé hreinsað á ríkisútvarpinu hvílir að lokum á ráðherranum Loga Einarssyni og Samfylkingunni. Til þingflokks hennar hefur Þórður Snær Júlíusson hins vegar ráðist. Hann var virkur þátttakandi í laumuspilinu og er talsmaður þöggunar. Það er skömm að bera ábyrgð á feluleiknum og niðurlæging fyrir ríkisútvarpið að taka þátt í honum.