23.8.2024 10:33

Demókratar sókndjarfir

Línurnar eru óvenju skýrar þegar 74 dagar eru til kjördags. Fréttaskýrendur segja að flokksþing demókrata hafi heppnast miklu betur en þeir þorðu að vona. 

Nýr kafli hefst nú í bandarísku kosningabaráttunni eftir að staðfest er að Kamala Harris er forsetaefni Demókrataflokksins og Tim Waltz varaforsetaefni.

Ótrúleg breyting hefur orðið á yfirbragði baráttunnar frá því að Joe Biden (81 árs) dró sig í hlé sem frambjóðandi, fyrirvaralaust á samfélagsmiðlinum X sunnudaginn 21. júlí.

Donald Trump, forsetaefni repúblikana, og JD Vance, varaforsetaefni hans, minna helst á stjórnmálamenn frá öðrum tímum þegar þeir spóla í því fari sem Trump krefst af Repúblikanaflokknum, að allt snúist um persónu hans sjálfs.

Þeirri gagnrýni var beint gegn demókrötum eftir að Biden hætti við framboðið að forysta flokksins, og þar með Kamala Harris, væri ekki trúverðug vegna þess að hún hefði hylmt yfir ellihrumleika Bidens sem gerði hann óhæfan til framboðs. Þeir sem þetta segja og styðja Trump kasta grjóti úr glerhúsi. Þeir eru ekki trúverðugir nema þeim takist að breyta framkomu, málflutningi og orðbragði frambjóðanda síns.

Screenshot-2024-08-23-at-10.32.06Kamala Harris á flokksþingi demókrata 22. ágúst 2024.

Í magnaðri ræðu sinni að kvöldi 22. ágúst þegar hún tók tilnefningu flokksþings demókrata um framboð sitt sagði Kamala Harris meðal annars:

„Ég mun sjá til þess að við verðum í forystu heimsins inn í framtíð geims og gervigreindar, að Bandaríkjamenn en ekki Kínverjar vinni samkeppnina um 21. öldina og að við styrkjum en hverfum ekki frá forystu okkar á heimsvísu. Trump hótar hins vegar að yfirgefa NATO. Hann hvatti Pútin til að ráðast á bandamenn okkar. Sagði að Rússar gætu „gert hvern fjandann sem þeir vildu“.

Fimm dögum áður en Rússar réðust á Úkraínu hitti ég Zelenskíj forseta til að vara hann við áformum Rússa um innrásina. Ég átti minn hlut að því að virkja þjóðir um heim allan – í rúmlega 50 löndum – til varna gegn árás Pútins. Sem forseti mun ég veita Úkraínu og bandamönnum okkar í NATO öflugan stuðning.“

Þótt ótrúlegt sé kristallast í þessum tveimur efnisgreinum ágreiningur Harris og Trumps í afstöðunni til innrásarinnar í Úkraínu og samstöðu NATO-ríkjanna með Úkraínumönnum. Trump lætur sem vind um eyru þjóta allar viðvaranir um að í Úkraínu sé barist um stjórnarhætti í heiminum, hvort látið skuli undan ofríkisöflum og einræðisherrum eða þeim veitt viðnám.

Síðar í ræðu sinni sagði Kamala Harris: „Ég mun ekki gera mér dælt við einræðisherra eins og Kim Jong-un sem leggja Trump lið. Sem leggja Trump lið.“

Ræða Harris var 37 mínútur en á flokksþingi repúblikana flutti Trump sundurlausa ræðu í 92 mínútur. Hann hringdi í Fox News eftir ræðu Harris til að segja að henni hefði mistekist, hann næði hins vegar árangri. Spænskumælandi kjósendur styddu sig, hann nyti mikilla vinsælda meðal svartra karla og einnig meðal kvenna vegna þess að konur kysu öryggi.

Línurnar eru óvenju skýrar þegar 74 dagar eru til kjördags. Fréttaskýrendur segja að flokksþing demókrata hafi heppnast miklu betur en þeir þorðu að vona og það veitti þeim enn meiri sóknarkraft en þeir þurftu í raun.