21.7.2021 12:15

Delta-afbrigðið veldur uppnámi

„Delta veldur gífurlegum hávaða en ég tel ekki rétt að hringja risastórri viðvörunarbjöllu,“ segir Harvard-sérfræðingur

Hér fjölgar veirusmiti dag frá degi og segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir að svonefnt Delta-afbrigði valdi „okkur skráveifu núna“.

Flest COVID-smit sem nú greinast tengjast skemmtistöðum í Bankastræti í Reykjavík og hópi sem kom frá London. Mannfagnaðir um verslunarmannahelgi og önnur fjöldamót kunna að vera í uppnámi.

Delta-afbrigðið var fyrst greint á Indlandi þar sem talið er að tæplega 30 milljónir manna hafi nú þegar smitast og að minnsta kosti 400.000 dáið. Það barst fljótt til Bretlands og má nú rekja 99% smita þar til þess. Það hefur fundist í 104 löndum og meðal annars hér á landi eins og áður segir.

Rannsóknir í Bretlandi sýna að Delta-afbrigðið er allt að 60% meira smitandi en Alfa-afbrigðið sem var sjálft að minnsta kosti 50% meira smitandi en upphafleg gerð veirunnar.

57939013_303Í The New York Times (NYT) birtist í dag (21. júlí) löng grein um mögnuð áhrif Delta-afbrigðisins í Bandaríkjunum og er því lýst sem mest smitandi afbrigðis kórónuveirunnar og til þess megi nú rekja meiri en helming nýrra smita í Bandaríkjunum. Hröð útbreiðsla Delta hafi orðið til að herða á skipulögðum aðgerðum bandarískra yfirvalda til að fá sem flesta til að láta bólusetja sig.

Veikindum, spítalavist og dauðsföllum fjölgi hratt í sumum ríkjum Bandaríkjanna þar sem lítill hluti íbúa sé bólusettur eins og í Arkansas, Missouri, Texas og Nevada. Kúrvan sé einnig á uppleið í New York-borg.

Haft er eftir bandarískum vísindamönnum að þótt smitum fjölgi áfram í haust sé ólíklegt að Bandaríkjamenn kynnist sömu hörmungum vegna veirunnar næsta vetur og í fyrra eða það þurfi að bólusetja þá að nýju innan fyrirsjáanlegrar framtíðar. Bóluefni gefin í tveimur skömmtum virki gegn Delta-afbrigðinu og skapi nú þegar fyrirstöðu gegn útbreiðslu þess.

Vitnað er til orða Bills Hanage, faraldursfræðings við Harvard T.H. Chan School of Public Health, sem segir:

„Ég held að Bandaríkjamenn hafi bólusett sig frá því að bylgja nái til allrar þjóðarinnar, jafnvel þótt næstum hvarvetna verði vart við einhver tilvik. Delta veldur gífurlegum hávaða en ég tel ekki rétt að hringja risastórri viðvörunarbjöllu.“

Almennt séð segja sérfræðingar að í vesturhluta og norð-austurhluta Bandaríkjanna séu flestir bólusettir en minnst í suðurhlutanum. Afstaða til bólusetninga ræðst meðal annars af flokkspólitískum skoðunum. Fleiri eru bólusettir á svæðum þar sem fleiri íbúar kusu Joe Biden en Donald Trump.

Í frétt NYT segir að þeir sem hafi verið bólusettir gegn kórónuveirunni þurfi ekki að hafa miklar áhyggjur. Margir kunni að hafa orðið hræddir vegna frétta um smit í Ísrael hjá fullbólusettum, allar fyrirliggjandi upplýsingar bendi hins vegar til þess að bóluefni veiti öfluga vernd gegn alvarlegum sjúkdómum, dragi mjög úr líkum á spítalavist og dauðsföllum sama hvert afbrigði veirunnar sé.

Flestir ferðamenn á Íslandi koma frá Bandaríkjunum. Umræður um veiruna þar hafa veruleg áhrif hér auk þess sem Delta-afbrigðið kann að leiða til takmarkana á samskiptum manna hér.