14.8.2020 11:36

Deilt um póstþjónustu og grímur

Þetta verður örugglega til þess að grímurnar verða að hörðu pólitísku ágreiningsefni ekki síður en póstþjónustan.

Þeir sem panta bækur eða annað á netinu frá útlöndum héðan frá Íslandi hafa vafalaust orðið varir við hve sendingar taka óheyrilega langan tíma að berast hingað. Raunar eru þessar tafir á óskiljanlegar nema heimsfaraldurinn hafi sett alþjóðlega póstflutningakerfið svona rækilega úr skorðum eða skipulega hafi verið dregið úr þjónustunni.

Nú berast fréttir frá Bandaríkjunum um að Donald Trump forseti og samherjar hans í bandarísku póstþjónustunni, Postal Service, vinni markvisst að því að hægja á sendingum þar. Þetta gera þeir í flokkspólitískum tilgangi.

Forsetinn er mjög andvígur utankjörstaðaatkvæðagreiðslu, atkvæðin eru send í pósti. Ljóst er að vegna COVID-19-faraldursins ætla fleiri Bandaríkjamenn en áður að greiða atkvæði utan kjörstaðar. Trump virðist telja mikla kjörsókn utan kjörstaðar óhagstæða fyrir sig. Þess vegna gefur hann til kynna að póstsendingar á atkvæðum auki líkur á kosningasvindli. Þá hafa stjórnendur póstþjónustunnar, bandamenn Trumps, gripið til sinna ráða til að fæla fólk frá að senda atkvæði í pósti, til dæmis með því að takmarka yfirvinnu meðal starfsmanna þjónustunnar. Þannig geti þeir enn dregið úr hraða sendinga fyrir kjördag.

Einstök ríki Bandaríkjanna setja reglur um utan kjörstaðarkosningu innan sinna marka. Póstþjónustan lýtur hins vegar alríkisstjórninni í Washington og getur því grafið undan ákvörðunum einstakra ríkja um utan kjörstaðarkosningu með því að breyta póstburðarreglum.

Files-us-politics-vote-democrats-biden-harrisJoe Biden og Kamala Harris

Að deilt sé um þetta þegar um þrír mánuðir eru til kjördags er í samræmi við mörg önnur mál sem orðið hafa ágreiningsefni í forsetatíð Donalds Trumps. Sé tekið mið af rannsóknum bendir ekkert til að það ráði meiru fyrir annan flokkinn en hinn hvort atkvæði eru greidd á kjördag eða utan hans. Hlutfallslega fleiri demókratar segjast þó ætla að greiða atkvæði utan kjörstaðar í ár en repúblikanar. Gagnrýni Trumps á þennan þátt kosninganna kann einfaldlega að leiða til þess að fleiri repúblikanar en ella sitji heima, þeir treysti hvorki póstinum né sjálfum sér til að fara á kjörstað.

Joe Biden, andstæðingur Trumps, hefur nú valið sér varaforsetaefni, Kamal Harris, öldungadeildarþingmann frá Kaliforníu. Eftir að fyrstu kynningu á neyja teyminu er lokið herðir Biden á sókninni gegn Trump með auglýsingaherferð sem sýnir áhorfendum hve illa Trump hefur staðið í baráttunni við COVID-19-faraldurinn. Þar er lögð áhersla á að menn gangi með grímur utan dyra.

Þetta verður örugglega til þess að grímurnar verða að hörðu pólitísku ágreiningsefni ekki síður en póstþjónustan. Allar eru þessar fréttir dapurlegt dæmi um flokkspólitískar ógöngur ráðamanna stóru bandarísku stjórnmálaflokkanna sem kunna að leiða til lítils áhuga á forsetakosningunum.

Grímur utan dyra eru sagðar gagnslausar og dregið er í efa að þær dugi innan dyra nema í höndum kunnáttufólks. Tilraunir til að fæla fólk frá að kjósa með því grafa undan póstþjónustunni af stjórnendum hennar eru opinbert skemmdarverk.