21.8.2018 9:23

Deilan um þriðja orkupakkann

Bjarni Jónsson segir að ég sé á „hálum ísi“ vegna þessarar skoðunar og þess álits að þriðji orkupakki ESB sé meinlaus fyrir okkur Íslendinga.

Ómaklega er vegið að Rögnu Árnadóttur, aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar, í Staksteinum í dag. Spjótunum hefði frekar átt að beina að mér vegna þess að Bjarni Jónsson rafmagnsverkfræðingur frétti af grein Rögnu á vefsíðu Úlfljóts eftir að ég vitnaði til hennar hér. Eftir að hafa lesið grein Bjarna er ég sömu skoðunar og áður, að grein Rögnu sé vel ígrunduð og rökstudd. Þá hef ég einnig vakið athygli á því hér að Kristín Haraldsdóttir, lektor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, er sömu skoðunar og Ragna.

Bjarni Jónsson segir að ég sé á „hálum ísi“ vegna þessarar skoðunar og þess álits að þriðji orkupakki ESB sé meinlaus fyrir okkur Íslendinga.

R596733_3855280Þrjú atriði nefnir Bjarni í grein sinni til að hnekkja þessari skoðun minni.

Í fyrsta lagi að ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) sé einskonar vasaúgáfa á ACER. Hann vill sem sagt ekkert gera með EFTA/EES-stoðina í þessu samstarfi og blæs einfaldlega á allar reglur og starfshætti á því sviði.

Í öðru lagi gefur hann sér að sá sem á að fylgjast með að farið sé að reglum í orkuviðskiptum geti ákveðið að lagður sé sæstrengur frá Íslandi til einhvers ESB-lands og þetta gerist árið 2027.

Í þriðja lagi áttar hann sig ekki á því að alþingi kemur að nýrri lagasetningu sem tekur eftirlitshlutverk af Orkustofnun og felur það stofnun sem er sjálfstæð gagnvart stjórnvöldum.

Lokadómur Bjarna um grein Rögnu er bæði yfirborðslegur og yfirlætisfullur.

Þegar umræður um þriðja orkupakkann hófust las ég það sem Bjarni Jónsson ritaði um málið og taldi hann reisa það á þekkingu sinni sem rafmagnsverkfræðingur. Hann sagði að með aðild að þessu samstarfi mundu Íslendingar afsala sér yfirráðum á orkuauðlindum sínum og ESB næði einhvers konar tangarhaldi á þeim.

Lýsti ég áhyggjum vegna þessa en hvatti til þess að málið yrði rætt. Einmitt þess vegna fagnaði ég grein Rögnu Árnadóttur og fleiri sem hafa sagt álit sitt á málinu. Skoðanir Bjarna um afsalið og tangarhald ESB stangast á við það sem er satt og rétt. Nú kýs hann að fara inn á svið lögfræðinnar. Hann ætti að biðja Rögnu Árnadóttur afsökunar, mér finnst að minnsta kosti leitt að hafa dregið athygli hans að ágætri grein hennar. Hún á betra skilið en afbökun Bjarna.