23.3.2025 21:56

Dapurleg ráðherraskipti

Ásthildur Lóa yfirgaf Bessastaði um bakdyr og hún afhenti Guðmundi Inga ekki lyklana að ráðuneytinu.

Nýr kafi er að hefjast í sögu ríkisstjórnarinnar og Flokks fólksins.

Ásthildur Lóa Þórsdóttir yfirgaf ríkisstjórn Kristrúnar Frostdóttur í dag, 23. mars, og Guðmundur Ingi Kristinsson, varaformaður Flokks fólksins, tók við af henni sem mennta- og barnamálaráðherra.

Á þremur sólarhringum hafa tilfinningaríkar umræður orðið um þessar sviptingar á stjórnarheimilinu sem rekja má til fréttar í Spegli ríkisútvarpsins klukkan 18.00 fimmtudaginn 20. mars.

1556420Heimir Már Pétursson, fjölmiðla- og framkvæmastjóri Flokks fólksins, fylgir Ásthildi Lóu á Bessastaði (mynd: mbl.is/Ólafur Árdal).

Í dag sendi forsætisráðuneytið fjölmiðlum tímalínu alls þess sem leiddi til afsagnar Ásthildar Lóu. Þetta er gert til að firra ráðuneytið ábyrgð á að það hafi lekið upplýsingum og brotið trúnað gagnvart þeim sem hratt atburðarásinni af stað með tölvubréfi 9. mars. Það var Ólöf Björnsdóttir, fyrrverandi tengdamóðir Eiríks Ásmundssonar, barnsföður Ásthildar Lóu, sem sendi þetta einfalda bréf:

„Góðan daginn, vinsamlegast útvegið mér fund með Kristrúnu Frostadóttur sem allra fyrst, fund sem mun taka um 5 mínútur.“

Á visir.is segir um örlagadaginn 20. mars:

„Í tímalínuskjali ráðuneytisins segir að í símtali þann 20. mars klukkan 10:55 hafi fréttamaður RÚV óskað eftir upplýsingum frá aðstoðarmanni forsætisráðherra um það hvort erindi sendanda hefði borist ráðuneytinu. Símtalið við fréttamanninn hafi varað í eina mínútu.

Þremur klukkustundum síðar sama dag, klukkan 13:52, hafi aðstoðarmaður Ásthildar sent aðstoðarmanni Kristrúnar skilaboð þar sem óskað var eftir fundi með forsætisráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra um málið. Það hafi verið gert vegna fyrirspurna RÚV til mennta- og barnamálaráðherra.

Forsætisráðherra hafi verið upplýstur um fundarbeiðni barnamálaráðherra skömmu síðar, klukkan 14:02. Þá hafi verið efnt til fundar forsætisráðherra, utanríkisráðherra, félags- og húsnæðismálaráðherra og mennta- og barnamálaráðherra sem hafi lokið á sjötta tímanum.“

Ríkisútvarpið sagði fréttina klukkan 18.00 og um 18.30 segir Ásthildur Lóa af sér.

Þarna sést að ákvörðun um afsögn er tekin eftir að mennta- og barnamálaráðherra sat fund með oddvitum ríkisstjórnarflokkanna. Þær þrjár Kristrún, Inga og Þorgerður Katrín hafa síðan hamrað á einhug sínum, samstöðu og góðum félagsanda milli stjórnarflokkanna. Jafnframt hafa þær borið lofsorð á Ásthildi Lóu. Þær voru þó ekki tilbúnar til að hafa hana áfram með sér í ríkisstjórninni, um stjórnina yrði að ríkja friður.

Nú renna tvær grímur á marga sem töldu fyrir tveimur sólarhringum að skipta yrði um ráðherra. Það hafi ef til vill verið alltof harkalegt miðað við málavexti.

Formaður Flokks fólksins er hins vegar ekki í neinum vafa. Blaðamaður Morgunblaðsins spurði hana á hlaðinu á Bessastöðum í dag: Telurðu rétt að Ásthildur Lóa hafi átt að segja af sér? Inga Sæland svaraði að bragði: „Ég tel að Ásthildur hafi brugðist alveg hárrétt við.“

Ásthildur Lóa yfirgaf Bessastaði um bakdyr og hún afhenti Guðmundi Inga ekki lyklana að ráðuneytinu.

Nýr kafi er að hefjast í sögu ríkisstjórnarinnar og Flokks fólksins