20.4.2018 10:27

Danskir ráðherrar snúast hart gegn umskurðarbanni

Að mál af þessum toga skuli flutt hér er í raun óskiljanlegt og ber það hugsunarleysi og fljótræði fyrsta flutningsmanns frumvarpsins gott vitni

þegar hún lýsir undrun yfir að málið veki athygli um heim allan.

Samráðsvettvangur trúfélaga og lífsskoðunarfélaga hélt þriðjudaginn 17. apríl ráðstefnu í Norræna húsinu um umdeilt umskurðarfrumvarp Silju Daggar Gunnarsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins. Frumvarpið er nú til afgreiðslu í allsherjar- og menntamálanefnd alþingis og snýst um að refsivæða umskurðinn. Að mál af þessum toga skuli flutt hér er í raun óskiljanlegt og ber það hugsunarleysi og fljótræði fyrsta flutningsmanns frumvarpsins gott vitni þegar hún lýsir undrun yfir að málið veki athygli um heim allan.

Í dönskum lögum er mælt fyrir um að lýsi meira en 50.000 kjósenda skriflega yfir stuðningi við eitthvert mál skuli það tekið til umræðu í þjóðþinginu. Nú hafa rúmlega 39.000 skrifað undir „borgaratillögu“ um að ekki megi umskera heilbrigð börn undir 18 ára aldri.

Í dag (20. apríl) tekur Anders Samuelsen, utanríkisráðherra Danmerkur, af skarið í viðtali við danska ríkisútvarpið (DR) og segir það stangast á við hagsmuni Danmerkur að banna umskurð ungra drengja.

Myndina tók Valgarður fyrir mbl.is og sýnir hún þátttakendur í ráðstefnu samráðsvettvangs trúfélaga og lífsskoðunarfélaga.

Ráðherrann hefur ráðgast um málið við samráðherra sína og segir hlutlæga niðurstöðu þeirra að Danir muni standa aleinir og verða fyrsta þjóðin til að fara þessa leið. Það veiki stöðu þjóðarinnar og valdi því að bandamenn sem almennt veiti Dönum stuðning í viðkvæmum málum geri það ekki í þessu.

Ráðherrann segir aðgerð sem þessa óskiljanlega frá bandarískum sjónarhóli. Allt að 60% bandarískra karla séu umskornir. Ísraelar skilji þetta alls ekki og sömu sögu sé að segja um stóran hluta múslima.

Claus Hjort Frederiksen (V), varnarmálaráðherra Danmerkur, tekur undir með utanríkisráðherranum og segir um gífurlega pólitíska áhættu að ræða.

Søren Pape Poulsen, dómsmálaráðherra og formaður Íhaldsflokksins, segir að hann ætli ekki að greiða atkvæði með tillögu sem jafngildi því að reka gyðinga frá Danmörku.

Innan dönsku stjórnmálaflokkanna eru skoðanir skiptar. Jafnaðarmenn og Radikalar hafa lýst andstöðu við bann en Sósíalíski þjóðarflokkurinn (SF) styður það. Venstre, Danski þjóðarflokkurinn (DF) og Enhedslisten hafa ekki tekið flokkslega afstöðu en Liberal Alliance (flokkur utanríkisráðherrans) og Íhaldsflokkurinn láta einstökum þingmönnum eftir að ákveða hvað þeir gera.

Páll Magnússon (S) er formaður allsherjar- og menntamálanefndar. Hann hefur sagt að málið verði afgreitt úr nefndinni. Óvíst er á hvern hátt það verður gert. Efnislega ætti að fara sömu leið og Svíar og Þjóðverjar.

Þingnefndinni ber að kynna sér niðurstöðu dönsku ráðherranna hafi hún á annað borð áhuga á að átta sig á hvaða áhrif samþykkt frumvarpsins óbreytts hefur fyrir stöðu Íslands út á við.