7.6.2024 10:49

Danir vara við Pútin

Hugarfarsbreytingin felist í því að hætta að óttast Pútin, hætta að draga „rauð strik“ og búast við að Pútin virði þau. 

Danski borgaraflokkurinn Liberal Alliance undir forystu Alex Vanopslaghs nýtur mikils og vaxandi stuðnings í Danmörku, ef marka má kannanir. Hann býður eins og aðrir flokkar fram í kosningunum til ESB-þingsins nk. sunnudag.

Föstudaginn 7. júní ganga flokksformaðurinn og oddviti flokksins í ESB-kosningunum, Henrik Dahl, fram fyrir skjöldu í samtali við Avisen Danmark og telja að grípa verði til enn markvissari stuðnings við Úkraínumenn til að stöðva hernað Pútins í Úkraínu og fæla hann frá frekari stríðsaðgerðum þar og gegn Evrópu.

Images-2bbAlex Vanopslagh, formaður Liberale Alliuance.

Kannanir á viðhorfi almennings til stefnumála í aðdraganda kosninganna sýndu að í Danmörku er mestur stuðningur meðal allra 27 aðildarríkja ESB við að staðinn verði traustur vörður um öryggi Evrópuríkja gagnvart Pútin og þess vegna skuli setja varnar- og öryggismál efst á forgangslista í ESB-kosningabaráttunni.

Í fyrrnefndu blaðaviðtali leggja þeir Vanopslagh og Dahl til að ESB-ríkin skuldbindi sig til að leggja árlega fram 0,25% af vergri landsframleiðslu sinni til stuðnings við Úkraínu, til vopnakaupa eða til að styrkja efnahag landsins. Stuðningurinn verði umfram þau 2% sem ríkin hafa nú þegar skuldbundið sig til í þágu NATO.

„Þetta snýst ekki bara um Úkraínu. Rússar hafa gírað efnahagslíf sitt á þann veg að þeir geti ráðist á ESB-land innan fimm ára. Við þurfum ekki annað en að taka Pútin á orðinu því að hann fer ekki leynt með vilja sinn. Hann vill kollvarpa frjálslyndri skipan alþjóðamála,“ segir Alex Vanopslagh.

Hann segir að þörf sé á „algjörri hugarfarsbreytingu í Evrópu“, ekki sé nóg að mála skrattann á vegginn heldur verði menn að spyrja sig hvað sé nauðsynlegt að gera svo Úkraínumenn vinni skýran og ótvíræðan sigur.

Hugarfarsbreytingin felist í því að hætta að óttast Pútin, hætta að draga „rauð strik“ og búast við að Pútin virði þau. Þess í stað eigi að styrkja Úkraínumenn á þann veg að Pútin leggi ekki til atlögu við vestrið.

Með þessum orðum styður Vanopslagh sjónarmið sem Anders Fogh Rasmussen, fyrrv. forsætisráðherra Dana og framkvæmdastjóri NATO, hefur kynnt undanfarna mánuði. Það megi aldrei láta undan hótunum Pútins, ekki einu sinni kjarnorkuhótunum, geri menn það feli þeir þeim sem ráða yfir kjarnavopnum öll völd. Þessi orð vega þyngra í huga forystumanna Liberal Alliance í Danmörku en óttinn við Pútin.

„Ég óttast langtum meira viðbrögð Pútins við veiklyndi, fái hann „blóð á tennur·“ og telji að við styðjum ekki Úkraínu,“ segir Alex Vanopslagh í samtalinu við Avisen Danmark.

Umræður um þetta eiga erindi hingað vegna þess uppgjafartóns gagnvart Pútin sem birtist m.a. í aðdraganda forsetakosninganna og utanríkisráðherra Íslands hefur mótmælt eins og vikið var að hér í gær.

Fáfræði íslenskra þingmanna um það sem hér um ræðir birtist síðan í því í gær að einn þingmanna Viðreisnar smættaði umræðuna niður í innflutning á kjúklingabringum frá Úkraínu!