23.3.2020 11:29

Danir vara enn við net-glæpamönnum

Lifa menn í þeirri trú hér að net-glæpamenn hafi ekki áhuga á Íslandi? Fáum við aðeins að finna fyrir veirunni en ekki fylgifiskunum?

Trine Bramsen, varnarmálaráðherra Danmerkur, sendi frá sér áskorun til Dana mánudaginn 23. mars um að þeir gættu sín á net-glæpamönnum.

Hún segir þá nú sjá tækifæri til að opna gervi-vefsíður undir því yfirskini að þeir vilji fræða fólk um Covid-19 veiruna. Þeir stundi vefveiðar með fölskum tölvubréfum sem þeir fullyrða að séu frá stjórnvöldum. Þeir reyni að ráðast á lykilhluta af stafræna samskiptakerfinu.

Varnarmálaráðherrann segir:

„Net-ógnin er mjög mikil. Við eigum að bregðast við henni af alvöru. Takist að skapa óstöðugleika í stafrænum samskiptakerfum okkar eykur það enn á vandann. Þess vegna höfum við aukið varnir á stafræna sviðinu umtalsvert. Þetta á bæði við um ríkisreknu miðstöðina Center for Cybersikkerhed og fyrirtæki á sviðinu sem ég tel að sýni mikla ábyrgð við þessar alvarlegu aðstæður.

Þrátt fyrir góðan viðbúnað og að fyrirtæki geri það sem þau geta ræðst stærsta hættan þó af því sem menn gera við skerminn heima hjá sér. Þess vegna er ástæða til að hvetja alla til að hugsa sig um áður en þeir slá á hnappinn. Með því er unnt að leggja stein í götu net-glæpamannanna.

Við ætlum ekki aðeins að sigrast á kórónaveirunni. Við ætlum einnig að sigrast á net-glæpamönnunum.“

19805245-608032916jpg

Í Morgunblaðinu í dag (23. mars) segir:

„Hildur Ingvarsdóttir, skólameistari Tækniskólans, segir að þar hafi tekist vonum framar að aðlaga skólastarfið nýjum aðstæðum. Áður en skipun um samkomubann var gefin út hafi verið ljóst að hverju fór og byrjað hafi verið að undirbúa að kennsla í skólanum gæti farið fram yfir netið. Þegar á reyndi hafi það verið vandkvæðalítið. Í gegnum forritið Microsoft Teams séu hópar tengdir saman í kennslustund sem sé oftast samkvæmt stundatöflu. Utan hennar eru kennarar, námsráðgjafar og aðrir starfsmenn í gegnum síma, tölvupóst og Teams tilbúnir til svara og að sinna þjónustu við nemendur Tækniskólans, sem eru um 2.700.“

Í annarri frétt Morgunblaðsins í dag segir:

„Tölur um samskipti á Innu, sem er tölvukerfi framhaldsskólanna og er í þjónustu Advania, sýna að í síðustu viku voru sendir tölvupóstar í kerfinu, þá yfirleitt milli nemenda og kennara, að jafnaði 70 þúsund á dag borið saman við 30 þúsund áður en bannið var sett á. Aukningin er 133% og síðuflettingum í kerfinu fjölgaði um 83% og voru í síðastliðinni viku um 530 þúsund á dag.“

Þessar tölur tala sínu máli um breytingarnar sem orðið hafa í netsamskiptum hér á landi.

Hér hefur þó enginn aðili gengið fram fyrir skjöldu og hvatt til aukinnar aðgæslu á netinu eins og gert hefur verið í Danmörku. Lifa menn í þeirri trú hér að net-glæpamenn hafi ekki áhuga á Íslandi? Fáum við aðeins að finna fyrir veirunni en ekki fylgifiskunum?