10.9.2017 10:03

Danir snúast gegn rússneskri lygamiðlun

Í Politiken segir að danska ríkisstjórnin líti ögrunina af fölskum fréttum svo alvarlegum augum að hún ætli að stofna hóp til að vinna gegn aðgerðum t.d. Rússa sem ætlað er að móta almenningsálitið.

.Í rússneskum fjölmiðlum hafa undanfarið birst fréttir um að í Danmörku standi fyrir dyrum að heimila rekstur vændishúsa þar sem unnt sé að stunda kynlíf með dýrum. Hefur frásögnum um þetta meðal annars verið dreift til Hvíta-Rússlands og Georgíu.

Á dönsku vefsíðunni altinget.dk er laugardaginn 9. september sagt frá því að deild ESB sem komið var á fót til að afhjúpa og vinna gegn upplýsingafölsun, áróðri og fölskum fréttum, East Stratcom, hafi greint þessa fölsun og sagt frá henni.

Segir East Stratcom að sagan um vændishúsið sé nýjasti liðurinn í upplýsingafölsunum sem miða að því að sannfæra fólk um „siðferðilegan brest“ í Evrópu.

Í byrjun ágúst 2017 var sagt frá því í litlum rússneskum fjölmiðli Kolokol Rossil að dönsk yfirvöld hafi heimilað að opnað verði dýra-vændishús í Kaupmannahöfn. Til að vekja athygli á fréttinni var hún skreytt með mynd af hundi sem var klæddur á þann hátt að líktist vændiskonu.

Þá er vitnað í jafnaðarmanninn Dan Jørgensen, fyrrv. matvælaráðherra, sem kallast Vlad Jørgensen sem á að hafa sagt að „danska stjórnarskráin verndar rétt borgarans til að stunda kynlíf með dýrum“.

East Stratcom segir að þessi saga hafi síðan birst í ýmsum rússneskum miðlum án þess að fá inni í miðlum sem ná til alls Rússlands.

East Stratcom telur að Kolokol Rossij hafi líklega fengið söguna frá frönskum gamansögu-miðli, Secretnews.fr, en látið þess ógetið að um skemmtisögu hafi verið að ræða.

Í frásögninni á altinget.dk er minnt á að kynlíf með dýrum hafi verið bannað í Danmörku frá 2015. Bannið megi rekja til ákvarðana sem Dan Jørgensen tók í ríkisstjórn jafnaðarmanna og róttækra.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem meðferð Dana á dýrum er til umræðu í rússneskum miðlum. East Stratcom telur að það sé ein af ástæðunum fyrir því að þessi síðasta lygasaga komist á þetta flug.

„Litið er á Danmörku sem stað þar sem komið er sérstaklega illa fram við dýr,“ segir East Stratcom og vitnar meðal annars til aflífunarinnar á gíraffanum Marius í dýragarðinum í Kaupmannahöfn sem vakti mikla athygli í mörgum rússneskum miðlum.

Í Politiken segir að danska ríkisstjórnin líti ögrunina af fölskum fréttum svo alvarlegum augum að hún ætli að stofna hóp til að vinna gegn aðgerðum t.d. Rússa sem ætlað er að móta almenningsálitið.

Anders Samuelsen, utanríkisráðherra Dana, segir að bregðast verði við þessari ögrun því að Danir séu ekki ónæmir fyrir henni. Í danska hópnum verða embættismenn frá nokkrum ráðuneytum og leyniþjónustu lögreglunnar, PET, og eftirgrennslanaþjónustu hersins, FE. Verkefni hópsins er að aðstoða sendiráð, danska fjölmiðla og almenning við að afhjúpa falskar fréttir og markvissar tilraunir til að skapa sundrungu eða hafa áhrif á almenningsálitið á samfélagsmiðlum.

Í morgun var rætt við dr. Margréti Eggertsdóttur á rás 1 um Hallgrím Pétursson, Guðbrand biskup, Brynjólf Sveinsson og Martin Lúther í til efni 500 ára afmæli siðaskiptanna. Af sjálfum siðaskiptunum má ráða hve erlendu áhrifin á Íslendinga voru mikil, svo mikil að eftir þau lögðu kirkjunnar menn ríka áherslu á að verja það sem íslenskt er og sporna markvisst gegn því að áhrifin kollvörpuðu íslenskri menningu og tungu.

Ekkert hefur breyst í þessu efni þótt aðferðirnar séu aðrar. Varnirnar verða einnig að taka mið af því hér eins og annars staðar.