Danir kynna reglur fyrir fullbólusetta
Í Danmörku hafa heilbrigðisyfirvöld afnumið 2 metra fjarlægðarregluna í samskiptum þeirra sem eru fullbólusettir og heimilað þeim að faðma aðra séu þeir á heimili sínu.
Í Danmörku hafa heilbrigðisyfirvöld afnumið 2 metra fjarlægðarregluna í samskiptum þeirra sem eru fullbólusettir og heimilað þeim að faðma aðra séu þeir á heimili sínu. Þetta er gert vegna þess að gögn sýni að bólusettir séu „mjög vel varðir“ gegn því að veikjast alvarlega og þurfa að leggjast inn. Frá þessu segir á vef danska ríkisútvarpsins, dr.dk, þar sem rætt er við Helene Probst, aðstoðarforstjóra Sundhedsstyrelsen.
„Þess vegna getur maður sleppt því að virða tveggja metra regluna eigi maður í samskiptum við aðra bólusetta,“ segir hún.
Um þessar mundir hafa um 6% Dana verið fullbólusettir með tveimur stungum.
Þar er um að ræða þá sem búa á dvalarheimilum, framlínustarfsmenn í félags- og heilbrigðisþjónustu og einstaklinga í eigin íbúð sem fá heimilishjálp.
Helene Probst segir að með þessari nýju ráðgjöf ljúki einangrun hjá mörgum sem hafi búið við hana í eitt ár.
Fjarlægðarkrafan fellur úr gildi 14 dögum eftir að fólk hefur fengið seinni sprautuna, eftir það sé ekki nauðsynlegt að virða tveggja metra regluna í samskiptum við aðra bólusetta.
Í fréttinni segir jafnframt að fullbólusettir megi með góðri samvisku faðma óbólusetta, nákomna ástvini og aðra vini séu þeir ekki í áhættuhópi, eldri en 65 ára eða með ólæknandi sjúkdóm. Fullbólusettur eldri borgari á dvalarheimili má nú til dæmis taka í hönd eða faðma barnabarn sitt.
Í fréttinni er einnig rætt við Nils Strandberg Pedersen, fyrrv. forstjóra Statens Serum Institut, sem vinnur meðal annars gegn smitsjúkdómum í Danmörku. Hann segir að skynsamlegt sé að auka svigrúm þeirra sem eru fullbólusettir þeir eigi að hafa heimild til að hittast án fjarlægðarmarka og grímu. Það séu sáralitlar líkur á að smit berist á milli tveggja fullbólusettra einstaklinga. Hann viðurkennir hins vegar að líkast til geti menn borið smit í aðra þótt þeir séu bólusettir.
Helene Probst segir að séu fullbólusettir í almannarými eins og til dæmis verslunum verði þeir að virða tveggja metra regluna því að þótt þeir hafi sjálfir fengið vörn kunni þeir að geta borið smit í aðra, enginn viti þetta þó nákvæmlega og þess vegna sé allur varinn góður. Í almannarými verði að taka tillit til annarra, sérstaklega á meðan hlutfallslega fáir séu bólusettir. Þegar þeim fjölgi verði reglurnar lagaðar að nýjum aðstæðum.
Í fréttinni á dr.dk segir að með þessum nýju reglum fari dönsk sóttvarnayfirvöld að fordæmi Bandaríkjamanna en þar hafi fyrr í marsmánuði verið gefin út sú regla að fullbólusettir Bandaríkjamenn geti átt samskipti við aðra bólusetta án þess að bera grímu eða virða fjarlægðarmörk.
Hér á landi voru 6,9% íbúa fullbólusettir fimmtudaginn 25. mars þannig að við erum álíka sett að því leyti og Danir. Hafi verið slakað á reglum hér á landi á þann veg sem dönsk heilbrigðisyfirvöld gera núna, hefur það farið hljótt.