12.9.2025 11:10

Danir kaupa loftvarnakerfi – Íslendingar breyta stjórnkerfi

Hjá Dönum leiðir matið á hættunni til þessarar miklu fjárfestingar til varna gegn loftárásum. Hér leiðir niðurstaðan inn á við til þess að hugað skuli að skipulagi öryggis- og varnarmála innan stjórnarráðsins og stjórnkerfisins.

Tilviljun réð því örugglega að sama dag, föstudaginn 12. september, og danski varnarmálaráðherrann, Troels Lund Poulsen, kynnir langstærstu vopnakaupin í sögu Danmerkur, efnir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra til málþings til að kynna niðurstöður samráðshóps þingflokka um íslenska varnar- og öryggisstefnu.

Í Danmörku hafa stjórnmálaflokkarnir sem standa að samkomulaginu um varnir landsins ákveðið að varið skuli 58 milljörðum danskra króna til að kaupa loftvarnakerfi staðsett á landi. Þetta er tvöföld fjárhæð sé miðað við kaup Dana á 27 F-35-orrustuflugvélum.

Athygli vekur að Danir ætla ekki að kaupa Patriot-loftvarnakerfi frá Bandaríkjunum. Stjórnmálamennirnir hafa þess í stað ákveðið að fara að ráðum hersins um að kaupa franskt-ítalskt kerfi, SAMP/T ásamt fleiri kerfum frá Noregi, Þýskalandi og Frakklandi.

Fréttaskýrendur velta fyrir sér hvort með ákvörðuninni vilji Danir gefa Trump viðskiptalegt spark vegna yfirlýsinga hans um Grænland. Herforingjarnir mæla hins vegar sterkt með evrópska kerfinu auk þess sem afgreiðslutíminn vegna þess sé styttri en vegna Patriot.

Screenshot-2025-09-12-at-11.06.08

Enhedslisten lengst til vinstri í Danmörku stendur ekki að danska varnarmálasamkomulaginu. Hér stendur Miðflokkurinn ekki að 38 bls. myndskreyttri skýrslunni sem utanríkisráðherra kynnti í dag undir heitinu: Inntak og áherslur stefnu í varnar- og öryggismálum. Hún hefst á þessum orðum:

„Það eru viðsjárverðir tímar og ríki Atlantshafsbandalagsins verða að horfast í augu við alvarleika þeirra ógna sem steðja að öryggi þeirra og lýðræði.“ Og í inngangi segir einnig: „Ógnin er raunveruleg, hún er mikil og hún er það aðkallandi að nauðsynlegt er að bregðast við hratt og af festu.“

Niðurstaða matsins á ytra umhverfinu kemur ekki á óvart. Hjá Dönum leiðir matið á hættunni til þessarar miklu fjárfestingar til varna gegn loftárásum. Hér leiðir niðurstaðan inn á við til þess að hugað skuli að skipulagi öryggis- og varnarmála innan stjórnarráðsins og stjórnkerfisins.

Gera verði heildstæða skoðun á löggjöf og regluverki sem lýtur að varnar- og öryggismálum. Tryggja þurfi að íslensk löggjöf á sviði varnar- og öryggismála sé skýr og samræmd hvað varði ábyrgð og heimildir stjórnvalda. Styrkja stofnanaumgjörð varnarmála og efla enn frekar samstarf innan stjórnsýslunnar um verkefni á sviði varnar- og öryggismála. Boðað er að utanríkisráðherra muni flytja þingsályktunartillögu með vísan til skýrslunnar.

Vissulega verður að hafa þessa hluti í lagi og ætti fyrst að velta fyrir sér hvort skilja eigi allt sem varðar aðgerðir frá utanríkisráðuneytinu og færa inn á borgaralegt verksvið dómsmálaráðuneytisins.

Í fjárlögum næsta árs virðist um 1,1 milljarður kr. til ráðstöfunar til varnartengdra verkefna á vegum utanríkisráðuneytisins. Þetta fé ætti að eyrnamerkja sérsveit ríkislögreglustjóra, gæslu landamæra og þeim sem sinna öryggi borgaranna. Hvað með loftvarnir hér að fordæmi Dana?