21.8.2023 10:04

Danir hylla Zelenskíj

Zelenskíj og Olena, kona hans, eru í Danmörku í dag (21. ágúst). Þau gengu í morgun á fund Margrétar 2. drottningar. 

Það var sögulegt að fylgjast með því í beinni útsendingu danska sjónvarpsins síðdegis sunnudaginn 20. ágúst þegar Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti kom til dönsku Skrydstrup flugherstöðvarinnar á Suður-Jótlandi og Mette Frederiksen forsætisráðherra sagði:

„Við vitum að frelsi ykkar er frelsi okkar. Við vitum einnig að þið þarfnist meiri aðstoðar. Það er þess vegna sem við gefum 19 F16-orrustuvélar.“

Fyrstu sex vélarnar verða afhentar í kringum áramótin, næstu átta á árinu 2024 og síðan fimm árið 2025. Tímasetningarnar ráðast ekki síst af hvernig gengur að þjálfa flugmenn og tæknimenn frá Úkraínu en nú eru 70 manns úr flugher landsins í þjálfun í Danmörku,

IMG_7870Margrét II. Danadrottning fagnar Zelenskíj-hjónunum í Amalaienborg höllinni.

Zelenskíj og Olena, kona hans, eru í Danmörku í dag (21. ágúst). Þau gengu í morgun á fund Margrétar 2. drottningar. Danska ríkissjónvarpið DR1 sýnir beint frá konungshöllinni og þinghúsinu en Zelenskíj flytur dönsku þjóðinni þakkarávarp á tröppum þinghússins, Kristjánsborgar, áður en hann heldur af stað, að eigin sögn til annars mikilvægs vinarlands.

Danskir stjórnmála- og fréttaskýrendur segja álit sitt í blöðum í dag. Emil Rottbøll, fréttaritari Berlingske í Rússlandi, segir að á afdráttarlausan hátt hafi Danir lagt sitt lóð á vogarskálarnar með Úkraínumönnum og í ljós komi hvaða áhrif það hafi á þreytustríð þeirra gegn Rússum.

Jacob Kaarsbo greinandi hjá hugveitunni Europa segir við Berlingske að það sé fyllilega lögmæt ákvörðun að láta Úkraínumönnum þoturnar í té þar sem Rússar geri sprengjuárásir á almenna borgara og vélarnar styrki varnir þeirra.

Søren Nørby, aðjúnkt í Forsvarsakademiet, segir í Politiken að hann sé undrandi yfir fjölda vélanna. Hann hefði haldið að ekki væri unnt að láta svo margar af hendi án þess að skerða öryggi Danmerkur. Í gjöfinni felist „flot signal“.

Vladimir Barbin, sendiherra Rússlands í Kaupmannahöfn, segir að með gjöf sinni stigmagni Danir átökin. Þegar TV2 ber þessi ummæli undir Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, segir hann: „Takið ekki mark á honum. Markmið rússneskrar „diplómatíu“ er að ljúga.“

Fyrir utan danska þinghúsið er eldri kona frá Donetsk, hernámssvæði Rússa í austurhluta Úkraínu. Hún veifar rússneska fánanum og kallar í Magnus Heunicke umhverfisráðherra þegar hann gengur út úr þinghúsinu.

Ráðherrann: „Nú hver fjandinn, þú hér með rússneskt flagg? Fyrst voru það bólusetningarnar, nú er það Rússland.“

Konan: „Þetta tengist allt saman.“

Ráðherrann: „Um það verðum við aldrei sammála.“

Þegar konan segir að þau ættu að fá sér kaffi saman, heyrist ráðherrann segja já þótt ekki fylgi því mikil sannfæring.

Margir bera fána Úkraínu og Danmerkur í blíðviðrinu við þinghúsið í Kaupmannahöfn og virðulegur hátíðleiki setur svip á útsendingu danska sjónvarpsins þar sem allir starfsmenn og viðmælendur bera með sér að viðburðurinn sé sögulegur.